141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:02]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er fróðlegt að heyra. Ég held einmitt að þessi fyrsta lota í gerð rammaáætlunar, eftir að Alþingi samþykkti samhljóða lögin hér í fyrra, leiði margt fram sem við þurfum að breyta í ferlinu og við getum lært af til framtíðar. Það getur gert að verkum að meiri sátt verði um ferlið í heild sinni og komið í veg fyrir mjög mikil pólitísk átök um einstaka kosti. Aðferðafræðin leiðir af sér hvort þetta verði til frekari friðar og sátta um þessi mikilvægu átakamál. Ég held að almennt sé þorri Íslendinga nokkuð sammála í þessu máli. Fólk er almennt frekar náttúruverndarsinnað, hófsamt í nýtingarmálum en vill samt nýta það sem talið er skynsamlegt að nýta.

Auðvitað skýtur það skökku við að sjá að vegna einhverra gagnasendinga og mannlegra mistaka fari kostur eins og Hólmsárvirkjun neðri við Atley ekki úr bið í nýtingu og svo mætti áfram telja. Einhvern veginn þurfum við að lenda þessu máli og komast í gegnum þetta (Forseti hringir.) átakabál núna þannig að það (Forseti hringir.) fuðri ekki hér upp heldur verði samþykkt á endanum svo að við getum haldið áfram að betrumbæta ferlið.