141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir bæði heiðarlega og efnislega ræðu. Hv. þingmaður harmaði það helst að ýmis jarðhitaverkefni sem núna eru í nýtingarflokki samkvæmt þessari tillögu væru þar og taldi að þau ættu ýmist heima í biðflokki eða verndarflokki.

Við verðum að skoða þetta mál í tilteknu pólitísku ljósi. Ríkisstjórnin lagði mikla áherslu á að koma ákveðnum virkjunum sem ekki hlutu náð fyrir hennar augum úr nýtingarflokki, eins og þær hefðu átt heima í miðað við drög að þingsályktunartillögunni, í biðflokk. Þá stóð auðvitað ríkisstjórnin frammi fyrir því að geta ekki skilað hingað plaggi þar sem enginn nýtingarflokkur næði máli. Þess vegna er áhersla hæstv. ríkisstjórnar á jarðhitaverkefnin.

Það sem er hins vegar að gerast í meðferð meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, og óttast ég nokkuð að formaður hafi átt þar hlut að máli, er að það er verið að stimpla þessar virkjanir út. Það er verið að búa til viðmið sem eru með þeim hætti að það er alveg ljóst mál að þessi jarðhitaverkefni verða líka út úr myndinni (Forseti hringir.) og þess vegna er þetta í rauninni tillaga (Forseti hringir.) um stopp á framkvæmdum á orkunýtingarsviði.