141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:06]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni um að þarna séu skrifuð inn einhver viðmið sem séu óeðlileg eða stoppi framkvæmdir. Þetta eru viðmið sem við satt best að segja lesum öll um í fréttum að blasi við, og erum búin að lesa um í fréttum um nokkurt skeið, þ.e. erfiðleikar varðandi jarðvarmann. Eins og hv. þingmaður hefur komið inn á í ræðum sínum varðar það ýmislegt sem enn er óleyst eins og mengandi affallsvatn, jarðskjálftavirkni, brennisteins-, vetnismengun o.fl. Við erum að ítreka þessi sjónarmið og þá varúðarnálgun sem þarna verður að hafa til hliðsjónar. Það er hins vegar alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ég hefði talið rétt að setja fleiri jarðvarmaverkefni í bið einmitt út af öllum þessum óvissuþáttum. Það stendur í lögunum (Forseti hringir.) að þar sem upplýsingar skortir eigi svæði að fara í bið (Forseti hringir.) og þarna skortir verulega upplýsingar.