141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir þakkir annarra hv. þingmanna til hv. þingmanns fyrir að blanda sér í umræðuna. Það gefur strax svör við mörgum spurningum og varpar ljósi á sjónarmið hennar.

Ég ítreka spurninguna sem kom fram áðan um neðri hluta Þjórsár og hv. þingmaður er ekki búin að svara: Vill hún virkja tvær efri virkjanirnar þar?

Önnur spurning: ASÍ hefur sagt að það að rammaáætlun hafi ekki verið afgreidd eins og til stóð hjá verkefnisstjórninni muni skaða félagsmenn sambandsins — er hv. þingmaður sammála því? Sér hún samhengi milli þess að virkja og nýta auðlindir landsins og þess að hagur verkamanna og heimila í landinu batni? Eða er ASÍ úti á túni í þessu máli?

Nú hefur hv. þingmaður mjög sterka skoðun á ákveðnu sviði — getur hún sett sig í spor hinna sem eru með jafnheitar eða heitari tilfinningar í öfuga átt?