141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:16]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Umræðan hefur staðið í allnokkurn tíma, verið löng og ítarleg. Menn hafa komið mjög víða við í umfjöllun sinni og er kannski ekki að undra í ljósi þess hversu mikilvægt mál er á ferðinni. Við byggjum tilveru okkar og búsetu í landinu á því að nýta gögn þess og gæði til lands og sjávar. Eitt af því sem hefur fleytt okkur áfram í gegnum mikinn vöxt og skapað þau skilyrði að Íslendingar hafa skipað sér á fremstu bekki meðal þjóða heims í lífsgæðum sem þjóðin býr við er meðal annars sú staðreynd að við búum við miklar auðlindir í formi vatnsafls og jarðvarma sem við höfum sem betur fer getað nýtt okkur til góðs og byggt upp þjóðfélag sem er mörgum öðrum til fyrirmyndar. Þau lífsgæði sem við búum við eru á margan hátt eftirsóknarverð fyrir ótölulegan fjölda fólks sem býr vítt um veröld. Aðstæður okkar eru gríðarlega góðar í samanburði við margar aðrar þjóðir veraldar.

Þá kynni einhver að spyrja hvers vegna við værum að þrasa um það hvort við ættum að ganga lengra í því að skapa okkur betri lífskjör. Að sjálfsögðu er það fullkomlega eðlileg og heiðarleg spurning að takast á við. Það vill hins vegar svo til að það er enginn tilbúinn til þess að mæla með því að lífskjör, lífsskilyrði og búsetuskilyrði í okkar ágæta landi rýrni frá þeirri stöðu sem við höfum náð. Við þekkjum það einfaldlega af þeirri umræðu sem hefur átt sér stað núna í kjölfar hrunsins að mikil átök hafa verið um það hversu mikið og hvernig við eigum að mæta þeim áföllum sem þjóðfélagið varð fyrir við efnahagshrunið. Þar takast menn á um leiðir til að byggja sig upp aftur.

Talað hefur verið um að það mál sem liggur hér fyrir sé ákall um það meðal fólks um allt land að rammaáætlun um þessa þætti sé unnin, þ.e. að við gerum okkur lengri tíma áætlun um hvaða svæði við ætlum að virkja, hvaða svæði við ætlum að vernda og hvar við ætlum að nýta þá orku sem upp úr þeim kann að vera tekin. Það er alveg rétt að eftir því hefur verið kallað í langan tíma og ekki síst af hálfu stjórnmálamanna líka sem hafa lent í því oftar en ekki að standa í þeim sporum að hnakkrífast um hvort það sé til góðs að gera þetta eða hitt og andstæð sjónarmið hafa tekist á. En þannig hefur það verið og þannig mun það að sjálfsögðu alltaf verða. Það er ekkert óeðlilegt við það að menn standi upp og átök séu um hvaða mál séu til framfara og hvernig eigi að koma þeim í höfn.

Ég er ekki endilega þeirrar skoðunar að einhver öfgasjónarmið í hvora áttina sem er hafi tekið völd í þessari vinnu. Ég held að það sé ekki skýringin á þeim átökum sem standa um þetta verkefni núna. Ég er þeirrar skoðunar að öll þessi vinna og þau skoðanaskipti sem um þetta eru séu til góðs. Þau skila okkur alltaf eitthvað áfram en eðlilega stendur eitthvað út af og um það erum við að takast á.

Ég vil segja líka í ljósi þeirrar umræðu sem oftar en ekki hefur staðið í íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum að einhverjir tilteknir einstaklingar geti útnefnt sig sem umhverfissinna, þá fullyrði ég og skal standa með því hvar sem er að Íslendingar allir, þ.e. þeir sem búa hér á landi, eru í eðli sínu og innsta kjarna allir umhverfissinnar. Sá sem treystir sér til og nær þeim árangri að lifa af búsetu í jafnharðbýlu landi og Ísland er, það er töluvert í hann spunnið að umgangast land sitt með þeim hætti að hann geti alið afkomendur sína upp til þess að taka við þeirri arfleifð sem hann skilur við sig. Þannig hefur íslenska þjóðin umgengist landið, sem sögur herma að við höfum numið einhvern tímann fyrir árið 1000. Þannig hefur íslenskri þjóð tekist að lifa af í gegnum aldirnar við sult og seyru oft á tíðum en núna á síðari áratugum við tiltölulega góð skilyrði og mikla búsæld.

Við Íslendingar njótum þrátt fyrir allt enn í dag þeirra gagna og gæða sem landið gefur okkur. Það bendir til þess að við höfum umgengist það með þeim hætti að það gefur af sér enn og elur þjóðina. Sambúð manna, Íslendinga og landsins, hefur verið að stærstum hluta með miklum ágætum í gegnum aldirnar. Vissulega hafa menn framið axarsköft og oft á tíðum hefur landið refsað okkur, harðneskjuleg náttúran getur gefið stór högg og við það búum við. Við reynum að laga okkar tilveru að því að þola þau högg þegar þau koma.

Því spyr maður og það vekur upp nokkra undrun þegar þessi umræða á sér stað núna með þeim hætti sem raun ber vitni — fyrir allnokkru, allmörgum árum, komu stjórnmálamenn sér saman um að setja þessar deilur í íslensku þjóðfélagi í það sem kallað er faglegan búning, faglega vinnu, þá undrar mann eðlilega, og ef til vill þá sem horfa til umræðunnar hér, hvers vegna stjórnmálamenn á Alþingi takist á um þá faglegu niðurstöðu sem þarna var sett af stað og skilaði síðan vinnu sinni til ráðherra. Það er ekkert skrýtið þó að menn undrist það. Ástæðan er fyrst og fremst sú að verið er að gera breytingar á því faglega starfi sem unnið var í áranna rás á grundvelli þeirra samþykkta sem gerðar voru. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr að heyra það standa þau átök fyrst og fremst um það með hvaða hætti á að ganga til verka við þá nýtingu sem þessir ólíku hópar vilja standa að.

Að því leytinu til má alveg segja og fullyrða að grunnurinn að þeirri tillögugerð sem fyrir liggur er góður. Um hann ríkti breið samstaða, pólitískt, og líka í hinum faglegu hópum svokölluðu. Lögð var mikil vinna í þetta verk. Henni var ætlað að útfæra skynsamleg markmið. Allt þetta varð til þess að við verkið voru bundnar miklar væntingar. Því eru það mér mikil vonbrigði að við skulum standa í þessu þrasi sem raun ber vitni um við síðari umræðu um þá tillögu sem lögð hefur verið fram í málinu.

Ég fullyrði að ástæðan fyrir því að þessar deilur standa er sú að menn hafa gert breytingar á niðurstöðu þess faglega ferlis og þeirri faglegu niðurstöðu sem út úr verkinu kom. Í umræðunni hefur komið fram að áherslubreytingin liggur fyrst og fremst í því að þeim umdeildu virkjunarkostum sem lúta að virkjun vatnsafls er ýtt til hliðar frá því faglega starfi sem áður hafði verið unnið. Eftir standa í rauninni tveir vatnsaflskostir, vatnsaflsvirkjanir, þ.e. Hvalárvirkjun og síðan stækkun á Blöndulóni. Mjög athyglisvert er að það eru þeir einu virkjunarkostir í vatni sem boðið er upp á í þessum efnum og vekur að sjálfsögðu áfram upp spurningar hvers vegna verið er að víkja þeim vatnsaflskostum til hliðar sem tillagan gerir ráð fyrir frá niðurstöðu faghópanna. Jafnvel má fullyrða að verið sé að taka töluvert mikla áhættu á sviði íslenskra þjóðfélagsmála með því að beina sjónum okkar sem þjóðar fyrst og fremst að þeim þætti orkumálanna sem lýtur að jarðvarmanýtingu. Á það bendir hin faglega stofnun sem heitir Orkustofnun, og er í rauninni ríkisstofnun, í umsögn sinni sem hún gefur Alþingi um málið. Í þeirri umsögn sem Orkustofnun sendi inn 8. maí síðastliðinn, þ.e. á þessu ári, er það ítrekað að tillagan eins og hún liggur fyrir muni þrýsta á hraðari nýtingu jarðvarmans, og með þeirri áherslubreytingu sem áður hefur verið í umgengni Íslendinga um þær auðlindir eykst áhættan í tæknilegu og efnahagslegu öryggi. Þar með taka menn ákveðna sénsa eins og sagt er varðandi þá hagkvæmni og þann arð sem af þeim verkum mun leiða. Það þýðir með öðrum orðum að sú hagkvæmni og sú þekking sem við höfum byggt upp verður allt sett undir meiri áhættu en áður hefur verið. Það er ekki mjög æskilegt að mínu mati, ekki síst þegar við erum að horfa til þeirrar stöðu sem íslenskt þjóðarbú er í um þessar mundir.

Þar sem ég nefni það vil ég sérstaklega nefna að ein af umsögnunum sem komið hafa inn um þetta mál er frá fyrirtækinu Gamma sem sérhæfir sig í að meta fjárhagslega þætti ýmissa þátta í íslensku þjóðfélagi. Mat þessa fyrirtækis, sem ég held að sé ágætlega virt á sínu sviði, er í þá veru að við þá breytingu sem gerð er í meðförum stjórnmálamannanna á þessari faglegu niðurstöðu, að leggja þetta plagg sisvona fram, þýðir það að á gildistíma þingsályktunarinnar munum við skapa færri störf, við munum fá minni arð inn í þjóðarbúið og við munum fá minni framleiðni, þ.e. hagvöxtur verður ekki jafnmikill. Þetta eru ekki neinar smáræðis tölur. Eftir því sem mér er sagt metur fyrirtækið Gamma þetta þannig að við missum möguleika á því að búa til fimm þúsund ný störf. Við „töpum“ eða getum ekki aflað 270 milljarða tekna og samdráttur í hagvexti frá því sem áður hafði verið er á milli 4–6%. Þetta eru verulegar og miklar stærðir og full ástæða til að gefa því gaum, sérstaklega þegar haft er í huga að undirbúningur eða rökstuðningurinn fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til frá niðurstöðu faghópanna, verkefnisstjórnarinnar til þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir, er ekki nægilega sterkur.

Í því sambandi vil ég nefna það sérstaklega sem fram hefur komið meðal annars í nefndarálitum frá minni hluta atvinnuveganefndar. Þar er rökstutt að iðnaðarráðherra hafi vikið frá þeim tillögum sem verkefnisstjórnin hafi sett fram og það sé augljóst að þjóðhagslega hagkvæmir virkjunarkostir séu látnir sitja á hakanum, og það er sennilega ástæðan fyrir því og þeirri niðurstöðu sem ég gat um hér áðan að ráðgjafarfyrirtækið Gamma hefði komist að.

Það er raunar dálítið einkennilegt þegar maður horfir á smærri myndina í þessum efnum að uppgötva sumt sem þar er sagt og tengist — ég vil staldra sérstaklega við eitt atriði sem kemur fram í umsögn um Gjástykki, sem svo vill til að er í því ágæta kjördæmi sem ég sit fyrir á þingi, Norðausturkjördæmi. Þar segir í niðurstöðu verkefnisstjórnar að Gjástykki fái sæti 26 af sjónarhóli verndunar og í textanum frá faghópnum segir svo, með leyfi forseta:

„Virkjunarkostur sem liggur í nágrenni náttúruminja […] sem menn eru sammála um að eigi að njóta friðunar.“

Þetta er sem sagt niðurstaða faghópsins. Virkjunarkostur sem menn eru sammála um að eigi að njóta friðunar.

Ein lítil spurning af því tilefni er sú að ef menn eru sammála, er þá einhver þörf á umfjöllun um það mál? Fullyrðingin um að menn séu sammála er mjög óskýr í rauninni. Ef hún ætti að standast væri í rauninni engin þörf á að fjalla um þetta. Ef menn væru sammála um það að þetta væri og bæri að friða þyrfti ekkert að ræða það frekar. Annað atriði sem vekur athygli mína um þetta tiltekna svæði, án þess að vera að gera það að einhverju sérstöku ágreiningsefni, sem kemur fram og er bætt í rökstuðning verkefnishóps ráðuneytanna tveggja sem fengu þetta frá verkefnisstjórninni, er að það svæði hafi verndargildi á heimsmælikvarða án þess að það sé með nokkrum hætti rökstutt frekar. Vissulega get ég alveg tekið undir það að það er svæði á heimsmælikvarða, eins og raunar allt kjördæmið Norðausturland en ég þyrfti þá að rökstyðja það með ákveðnari hætti en þeim sem settur er fram í þessari niðurstöðu. Það er vandséð að átta sig á því á hverju það byggir, sú staðhæfing að þetta hafi verndargildi á heimsmælikvarða. Sennilega byggir það á því hversu vel var fylgst með framvindu Kröflueldanna á sínum tíma.

Ég vil þó geta þess í þessu samhengi varðandi Gjástykkið, þeirra tveggja þátta sem ég hef gert að umtalsefni úr niðurstöðu faghópsins og hins vegar svokölluðum rökstuðningi frá verkefnishópnum varðandi hugtakið menn og síðan yfirlýsinguna um heimsmælikvarðann, þá er annað atriði sem ég tel vert að nefna í þessu sambandi sem sýnir í rauninni hversu einkennilegar brautir þessi mál geta farið. Þannig háttar til að á árunum 2006–2008 unnu sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum ásamt Umhverfisstofnun, landeigendum og öðrum hagsmunasamtökum svæðisskipulag af háhitasvæðunum í Þingeyjarsýslum. Það svæðisskipulag var staðfest af umhverfisráðherra í febrúar árið 2008 og allir sáttir. Um svæðisskipulagið ríkti mikil og mjög víðtæk sátt. Sú áætlun sem tók til Gjástykkis og verndaráætlun þess náði einungis til 2% af því svæði sem þar um ræðir þar sem var gert ráð fyrir takmarkaðri orkunýtingu.

Þrátt fyrir alla þá vinnu og þrátt fyrir að sveitarfélögin, hagsmunaaðilar, Umhverfisstofnun og umhverfisráðherra séu búin að staðfesta mjög takmarkaða nýtingu á þessum örlitla hluta svæðisins, 2%, er gerð tillaga um að þetta verði sett í verndarflokk, þau 2% sem þarna um ræðir. Það þykir mér einkennilegt og sérstaklega þegar sú vinna sem ég gerði að umtalsefni, forseti, er ágætisdæmi um það að óvíða sé í rauninni að finna betra dæmi um að hægt er að fara bil beggja, þ.e. hagsmunir þeirra sem vilja nýta og hinna sem vilja ekkert snerta, þá er í rauninni því tækifæri að mínu mati klúðrað með þeirri tillögu sem liggur fyrir. Mér þykir það mjög miður, sérstaklega þegar þeir sem vilja nýta bjóða upp á það að 98% af tækifærinu sé (Forseti hringir.) friðað, en einungis 2% séu nýtt.