141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var afar athyglisverð og margt í henni sem fróðlegt væri að fara dýpra ofan í og fá frekari upplýsingar um.

Hv. þingmaður á sæti í fjárlaganefnd og hefur sinnt þeim málum vel og mikið undanfarið og fjárlögin bíða nú 3. umr. hér á þinginu út af þessu máli. Það hefur komið fram í umræðunum að kostnaður við breytingarnar sem gerðar eru sé um 270 milljarðar fyrir þjóðarbúið, 5.000 störf séu að tapast og hagvöxtur sé 4–6%. Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði á vefsíðu sinni í gær að ríkisstjórnina skorti algjörlega efnahagsstefnu og þetta væri …

(Forseti (ÞBack): Forseti biðst afsökunar og vekur athygli hv. þingmanns á að klukkan er í ólagi. Tímatakan fer fram bara hér hjá forseta. Ég geri viðvart.)

Takk fyrir þetta, frú forseti. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvernig hann líti á tengsl rammaáætlunar við fjárlagagerðina og efnahagsstefnuna og hvernig hann líti á stöðu ríkissjóðs í ljósi þeirra fjárútgjalda sem verið var að samþykkja, meðal annars í fjárlagaáætlun — setji þetta í samhengi við fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar.

Hér hefur verið talað um að fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar eigi að einhverju leyti að koma til móts við þetta 270 milljarða tap og þessi 5.000 störf. Getur hv. þingmaður farið aðeins ofan í tengsl þessa (Forseti hringir.) við fjárlagagerð ríkisins fyrir árið 2013 og svo til lengri tíma?