141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Sú var tíðin að menn kröfðust þess að ráðherrar kæmu til fundar um miðjar nætur til að taka þátt í umræðum og hlýða á umræðuna. Ég óska eftir því, frú forseti, að hæstv. umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, mæti hér og hlýði á umræðuna og ekki bara það, heldur að hún taki líka þátt í henni. Það er virðingarvert hvernig hv. formaður umhverfisnefndar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, hefur tekið þátt í umræðunni og varpað ljósi á ýmis mál. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra komi hér og varpi ljósi á það af hverju hún fór frá niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar? Af hverju hún braut þá sátt sem farin var? Af hverju hún kastaði stríðshanskanum?

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hún telji það til hagsbóta fyrir umhverfisverndarsinna og umhverfið að sáttin hafi verið rofin og að sáttin gildi eiginlega bara til næstu kosninga. Eftir það hafi menn frjálst spil um að fara á hendur náttúrunni að gefnu fordæmi.