141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:58]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Verkalýðshreyfingin á Suðurlandi hefur haldið fundi árlega síðastliðin þrjú ár með þingmönnum Suðurkjördæmis þar sem hún hefur hreinlega spurt: Hvenær verða virkjanir neðri hluta Þjórsár boðnar út? Hvað munu verða til mörg störf og hvenær hefjast framkvæmdirnar? Hvenær verður verðmætasköpunin til? Á Suðurlandi er stór jarðverktakageiri og byggingargeiri sem orðið hefur fyrir miklum áföllum eftir hrun. Einhverjir hafa orðið gjaldþrota, aðrir hafa dregið verulega úr starfsemi. Mjög margt fólk hefur flutt til útlanda, ýmist til tímabundinna starfa eða að öllu leyti og er verulega erfitt atvinnuástand á Suðurlandi í þeim efnum. Ástandið á Suðurnesjum er auðvitað enn verra hvað atvinnuuppbyggingu varðar, þannig að menn hafa horft til atvinnuskapandi framkvæmda. Í margnefndri skýrslu McKinseys er talað um í hverju við erum góð. Þar segir að við séum góð í fiskveiðum og matvælavinnslu og að við stöndum okkur vel í orkugeiranum, að á því eigum við að byggja skammtímauppbygginguna því að það sé svo auðvelt og við höfum svo góða möguleika þar. Til þessa sama hafa íbúarnir í Suðurkjördæmi horft. Ríkisstjórnin og þingmenn stjórnarflokkanna hafa ætíð svarað því með því að segja að við þurfum að bíða eftir rammaáætlun. En við þurfum ekki að bíða lengur, það stendur ekkert um það. Ég hef bent á það á þessum fundum að hættan sé sú að hér verði ekkert gert.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson, sem ætlar nú að hverfa af þingi, sagði að það væri eitt starf sem hann vildi ekki taka að sér, það væri að vera kosningastjóri þingmanna Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi í næstu kosningum með þessa rammaáætlun þar sem ekkert stendur, þar sem engin atvinnuuppbygging á að fara fram.

Sveitarfélögin hafa verið að aðlaga aðalskipulög sín og svæðisskipulög að þeirri stefnu sem verið hefur um langt skeið, þ.e. að setja inn virkjanir. Ef það verður síðan hluti af landsskipulagi eða engar verða virkjanir í rammaáætlun (Forseti hringir.) … og allt er upp í loft, veit enginn. Sú vinstri veit ekki hvað sú hægri ætlar að gjöra og öfugt í þessari ríkisstjórn, enda sjáum við (Forseti hringir.) hvernig yfirlýsingar ASÍ eru (Forseti hringir.) í garð ríkisstjórnarinnar …