141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ræðu hennar. Hún fór víða og benti á hið pólitíska inngrip í því langa faglega ferli sem hefur staðið yfir hátt í 14 ár, samráð og samvinna við hagsmunaaðila og þá sem hafa komið að þessu máli, Umhverfisstofnun og svo mætti lengi telja, öll ráðuneyti, samstarf allra stjórnmálaflokka o.fl. Á lokametrunum þegar búið var að skjóta lögformlegum reglum undir rammaáætlun fór ríkisstjórnin þá leið að breyta flokkunarröðinni á virkjunarkostum.

Þingmaðurinn fór líka yfir að það liti út fyrir að ekki væri hægt að hafa samspil hér á milli þeirra sem vilja virkja og þeirra sem vilja virkjunarbann og er ég alveg sammála þingmanninum um það. Ég sagði hérna í ræðu í gær að mér fyndist þetta mál vera á einhvern hátt þannig að lítill minni hluti kúgaði meiri hlutann. Það ástand er mjög hættulegt, að mínu mati, vegna þess að samfélagið tapar allt á því að fara ekki í framkvæmdir. Það verður því miður tap allra.

Þingmaðurinn fór aðeins yfir virkjunarkostina. Mig langar til að spyrja þingmanninn hverju það mundi breyta fyrir Skaftárhrepp að farið yrði af stað með virkjanir þar eins og til stóð í ljósi atburða liðinnar viku, vegna þess að verið var að skrúfa fyrir sorpbrennslu á Kirkjubæjarklaustri sem leiðir það af sér að sundlauginni var lokað og Skaftárhreppur stendur svo illa fjárhagslega að það á að taka rafmagnið af grunnskólanum þar yfir jól og áramót svo að sveitarfélagið þurfi ekki að standa í kostnaði og kaupa rafmagn á því verði sem er á markaði. Væri ekki mikil lyftistöng fyrir þetta svæði að fara í þær virkjanir sem er nú búið að taka (Forseti hringir.) út úr rammaáætlun?