141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:38]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sem svar við því síðasta sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir spyr mig um held ég að svarið sé augljóslega nei. Það er alveg ljóst að núverandi ríkisstjórn undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar ætlar sér að sitja út kjörtímabilið þrátt fyrir átök við allflesta, átök við verkalýðsforustuna, Samtök atvinnulífsins, átök við fræðasamfélagið að hluta og átök innan þings og átök við einn stærsta atvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn. Ég held að það sé alveg ljóst að þessi ríkisstjórn ætlar sér að sitja út kjörtímabilið og er sá meiri hluti sem hér er svo sem til þess kosinn. Það verður þá að koma í ljós þegar farið er í kosningar hvort þessir tveir flokkar nái því flugi sem þeir telja sjálfir að þeir séu á ásamt þeim málum sem hér eru inni, sem þeir telja að séu líka á flugi.

Það sem fyrir mér vakti með ræðu minni var einfaldlega að mér finnst rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða vera svo stórt mál að það sé eiginlega ótækt fyrir Alþingi Íslendinga að taka það út úr ferli þeirra faghópa sem að því komu og setja það í ferli pólitískra flokka og deilna, nokkuð sem átti að taka málið út úr.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að þingmaður hefur lýst því yfir að verði virkjað í Þjórsá segi hann skilið við ríkisstjórnina en ríkisstjórnin hefur nauman meiri hluta. Ég held að flestir sjái að annað liggur kannski að baki (Forseti hringir.) en landsins gæði.