141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:40]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur var athyglisverð. Ég er einn af þeim sem hafa alhæft um Sjálfstæðisflokkinn og talið þá vera alla með tölu andsnúna náttúruvernd, ég viðurkenni það. Það er kannski hægt að leiðrétta það.

Mig langar að gera athugasemd við ræðu þingmannsins um nokkur svæði. Það er ekki verið að færa virkjanir í Skaftárhreppi eitt eða neitt í rammaáætlun. Hólmsárvirkjun og Búlandsvirkjun voru settar í biðflokk og eru þar áfram. Hólmsárvirkjun er í biðflokki vegna skorts á gögnum þó að menn hafi deilt um það hvort þau hafi borist tímanlega eða ekki. Það er ekki sátt í sveitarfélaginu um þessar virkjanir. Það hefur ekki komið upp neitt mál í þessu sveitarfélagi undanfarin 100 ár sem meiri ósátt er um en virkjanir. Það vill svo til að ég er ættaður úr þessum landshluta og þekki því vel til. Það hefur aldrei í þessu litla fallega samfélagi verið rifist eins mikið. Það er ömurlegt að horfa upp á einhverja lukkuriddara á vegum einkafyrirtækja úr Reykjavík og ríkisfyrirtækja koma á svona svæði og dingla peningum framan í einstaka bændur til að fá þá til fylgilags við virkjanir og sundra þannig samfélaginu. Meiri hluti sveitarstjórnar hefur sett virkjanir á aðalskipulag, en það er það eina sem sá meiri hluti er sáttur við.

Virkjanir í Skaftárhreppi hafa ekkert með þriggja fasa rafmagn að gera. Þar sem vantar þriggja fasa rafmagn þarf Rarik að leggja þriggja fasa rafmagn frá byggðalínunni sem er við Kirkjubæjarklaustur og niður í Meðalland. Það hefur ekkert með virkjanirnar sjálfar að gera og því hefur verið lýst yfir að rafmagn úr þeim verði ekki nýtt á þessu svæði til neinnar iðnaðaruppbyggingar. Sú hugmynd að hugsanlega 15 milljónir í fasteignagjöld af virkjun sé næg ástæða til þess að rústa svo stórri og heilli landslagsheild gríðarlega fallegrar náttúru finnst mér alveg galin. Að sjálfsögðu standa einhver sveitarfélög ekki undir sér rekstrarlega, en þá ber okkur að koma með öðrum hætti (Forseti hringir.) að því að styrkja þau eða færa frá þeim verkefni í stað þess að eyðileggja náttúruna.