141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:44]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Það er ýmislegt sem ég vildi tæpa á í viðbót.

Hvað rammann varðar í heild sinni, af því að oft er talað um að um sé að ræða virkjunarsinna sem séu á móti rammanum og umhverfissinna sem séu með rammanum, þá er það alls ekki rétt eins og ég heyri fólk tala hér á þingi. Ég er til dæmis einn af þeim sem eru mjög ósáttir við rammaáætlun eins og hún er. Ég tel hins vegar betra að hún fari í gegn eins og hún er en að hún fari ekki í gegn. Ég er sammála hv. þingmanni sem talaði hér á undan mér um að jarðvarmavirkjanirnar eigi að fara í bið vegna þess að það er einfaldlega svo margt órannsakað í sambandi við þær. Það á við um fleiri virkjunarkosti. Ég lít á þetta sem ákveðna sátt í málinu eins og staðan er. Ég legg mjög margt til hliðar af mínum skoðunum í þessu máli til að samþykkja rammaáætlun eins og hún er í dag. Ég vek athygli á því að það er verið að færa virkjunarkosti úr nýtingu í biðflokk, það er ekki verið að færa þá inn í verndarflokk.

Af því að hv. þingmaður talaði um komandi kynslóðir þá lít ég einmitt á það sem frumskyldu okkar við komandi kynslóðir að þær fái eitthvað af gæðum landsins til ráðstöfunar í framtíðinni frekar en að við verðum búin að ákveða til framtíðar hvað á að gera við allar náttúruauðlindir hér. Það finnst mér hugsun sem við eigum að staldra við og velta fyrir okkur hvort ekki sé rétt.

Þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri er talið verða akkeri svæðisins fyrir vetrarferðamennsku sem gerir það að verkum að heilsársferðamennska á svæðinu verður að veruleika sem mun skapa heilsársstörf til frambúðar, miklu fleiri störf en skapast hugsanlega af kornþurrkun í Meðallandi þó að hún sé allra góðra gjalda verð. (Forseti hringir.)

Það er mjög margt sem því miður gefst ekki tími til að ræða við hv. þingmann. Ég vísa eina ferðina enn í það (Forseti hringir.) að ég lít á rammaáætlunina sem hér liggur fyrir sem akkúrat þá sátt í málinu sem hægt er að fara (Forseti hringir.) í gegn með.