141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:49]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hélt nokkuð áhugaverða ræðu í morgun og fór yfir og viðraði viðhorf sín og ég virði skoðanir hennar. Hún sagði meðal annars, virðulegi forseti, að við ættum að tala okkur saman en ekki sundur í þessu mikilvæga máli. Ég held að fyrsta skrefið væri auðvitað að þeir sem standa hér í ágreiningi um þessa tillögu sem liggur fyrir til rammaáætlunar tækju sig saman í andlitinu og ynnu þetta út frá þeirri forsendu, eins og hv. þingmaður lagði til, að við færum að tala okkur saman en ekki sundur.

Við getum tekist á um einstaka virkjunarkosti og mismunandi skoðanir okkar á þeim en þegar við ætlum að tala okkur saman og ekki sundur verðum við að horfa á stóru myndina sem liggur undir og átta okkur á því hvert við stefnum með rammaáætlun. Það er ljóst að helsti ágreiningurinn sem við gerum sem erum ósátt við þá tillögu sem liggur fyrir er sá að í okkar huga verður algjört stopp í hugmyndum um frekari orkufrekan iðnað og uppbyggingu hans á næstu árum verði þessi rammaáætlun að veruleika.

Það má segja að gagnrýnin sem ASÍ kemur fram með á ríkisstjórnina í dag og í gær byggi á sömu skoðunum, þ.e. ef menn ætla að sjá alvörufjárfestingu hér sem svo mikið er kallað eftir í þessu landi, ef menn vilja hefja uppbyggingu af einhverri alvöru, verði að taka slíkt inn í áframhaldandi vinnu og þróun við að nýta orkuauðlindir landsins. Öðruvísi munum við ekki geta náð að kalla til okkar þá mikilvægu, beinu erlendu fjárfestingu sem okkur er svo mikil nauðsyn. Þetta er sjónarmið sem ég held að stór hluti þjóðarinnar deili með okkur sem gagnrýnum rammaáætlun. Klárlega er þetta grunntónninn í gagnrýni ASÍ á núverandi stjórnvöld.

Þegar hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir segir að við verðum að tala okkur saman en ekki sundur verða þeir sem telja að jafnvel þurfi að ganga lengra í verndunarátt eða eru tilbúnir að sætta sig við þessa rammaáætlun að gera sér grein fyrir því að ekki getur orðið nein sátt í samfélaginu nema hliðrað sé til fyrir því í rammaáætlun að við getum haldið áfram veginn.

Hv. þingmaður sagði líka að með afgreiðslu rammaáætlunar væri ekki búið að segja lokaorðin um framtíðarsýnina. Það er alveg rétt. Auðvitað verður rammaáætlun lifandi plagg. Aðstæður breytast, tækni breytist og svo framvegis þannig að virkjunarkostir sem við sjáum fyrir okkur að eigi bara heima í verndarflokki í dag gætum við, með nýrri tækni og við aðrar aðstæður, mjög réttlætanlega sett jafnvel upp í nýtingarflokk. Að sama skapi geta nýjar upplýsingar, kannski sérstaklega á jarðvarmasviðinu, orðið til þess að við sjáum ástæðu til að vernda enn frekar á þeim vettvangi. Þannig tek ég undir með hv. þingmanni að ekki er búið að segja lokaorðin í málinu.

En hvernig nálgumst við þessa sátt? Það gerum við fyrst og fremst með því að taka tillit til stóru myndarinnar og stóru sjónarmiðanna og með því að gera okkur grein fyrir því að sáttin getur ekki verið fólgin í því að hér verði algjört stopp á þessu sviði. Við höfum hreinlega ekki efni á því. Ábyrgð okkar þingmanna er meiri en svo að við getum hunsað viðvaranir til dæmis aðila vinnumarkaðarins, ASÍ og Samtaka atvinnulífsins, þegar kemur að umræðunni um mikilvægar fjárfestingar í landinu.

Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sagði einnig að fjármögnunarvandræði steðjuðu að þessum geira og að ekki væri hægt að fara í framkvæmdir þess vegna. Þetta stenst reyndar ekki skoðun og ég fullyrði að þetta atriði á ekki við. Ef einhver er tilbúinn til að kaupa orkuna, sem okkur er sagt að séu fjölmargir, munum við einfaldlega geta byggt virkjunina. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir verður að svara því, ef hún hafnar því að fara af stað í augljósa virkjunarkosti eins og Holta- og Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár, hvar hún er tilbúin til að stinga niður fæti (Forseti hringir.) næst til þess að virkja.