141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum rætt hér um mikilvægi rammaáætlunar og þá staðreynd að menn leituðust við að búa til ferli sem sátt gæti verið um. Við höfum talað um að ferlið hafi verið vandað en líka sagt að það sé þó ekki hafið yfir gagnrýni. Í umsögn sem fyrirtækið Suðurorka skilaði inn um rammaáætlun er töluverð gagnrýni, að mörgu leyti nokkuð harkaleg, á verklagið við gerð rammaáætlunar. Það er ekki verið að deila á þær persónur sem unnu hana enda snýst málið ekki um það heldur er deilt á þau viðmið sem notuð voru eða skort á viðmiðum, skort á mælikvörðum og annað slíkt sem átti að nota.

Eins og til dæmis er nefnt hér í greinargerð Suðurorku að faghópur II hafi sagt að ekki hafi verið hægt að þróa aðferð til að meta áhrif á ferðaþjónustu og hlunnindi og í faghópi III hafi ekki verið hægt að meta byggðaleg áhrif og því hafi þeim niðurstöðum öllum verið hent út, í raun hafi ekki verið hægt að lesa neitt út úr tillögunum og byggðasjónarmiðum því hent út. Reyndar segir sá er skrifar undir þetta að faghópur III hafi ekki ráðið við verkefni sitt. Ég veit ekkert um það en að minnsta kosti kemur fram mjög mikil gagnrýni á að minnsta kosti tvo faghópa sem unnu að þessu og hvernig aðferðafræðin var.

Ég spyr: Segir þetta okkur ekki að þegar hafist verður handa við að gera nýja rammaáætlun þurfi að huga vandlega að því hvaða mælikvarðar og viðmið verða notuð svo að gera megi verkið sem allra trúverðugast?