141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Almennt talað ríkir nokkuð mikil sátt um það hvernig unnið var að rammaáætlun. Þetta er ferli sem hefur tekið langan tíma og var þróað eftir viðurkenndum alþjóðlegum stöðlum. Það er auðvitað alls ekki hafið yfir gagnrýni. Þegar við fjöllum um þessi mál þurfum við að hafa fagleg vinnubrögð að leiðarljósi eins og hægt er miðað við allar þær upplýsingar sem við höfum á hverjum tíma. Einmitt þess vegna verður rammaáætlun lifandi plagg.

Í lögum um rammaáætlun er gert ráð fyrir að hún skuli endurskoðuð að minnsta kosti á fjögurra ára fresti. Það er ekkert sem segir að það megi ekki endurskoða hana örar en það og verður alveg örugglega gert ef þessi rammaáætlun verður að lögum. Við breytingar á ríkisstjórn mun væntanlega verða samin ný rammaáætlun strax á þessu ári. Við þurfum auðvitað að taka tillit til þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram meðal annars á þessum vettvangi og öðrum, en það sem mér finnst samt standa upp úr er að almenn sátt hefur verið um vinnubrögðin og viðurkennt að faglega hafi verið unnið að rammaáætlun. Hún hafi verið unnin á mjög gagnsæjan hátt, fjöldi aðila hafi haft aðkomu að málinu. Það voru margir upplýsingafundir haldnir úti um allt land með hagsmunaaðilum og þannig gátu margir haft áhrif á vinnuna, komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Menn reyndu að vanda sig í hvívetna. Almennt finnst mér standa upp úr í gagnrýninni viðurkenning á því að vel hafi tekist til.