141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, ef ég gríp síðasta boltann sem hv. þingmaður gaf upp, að það var í raun eftir að ráðherrarnir tóku við málinu sem ferlið fór að verða að einhverju leyti tortryggilegt. Þessi einstaka athugasemd við þá virkjunarkosti sem Suðurorka nær til í Skaftárhreppi er nokkuð sem þarf að skoða sérstaklega. Varðandi þá virkjunarkosti hefur komið fram að upplýsingar sem áttu að berast verkefnisstjórninni skiluðu sér ekki, þær voru fyrir mistök ekki teknar til umfjöllunar. Það hefði verið hægt að ljúka málinu með tilliti til þessara upplýsinga í meðförum ráðherranna. Hæstv. ráðherrar hefðu getað tekið þessa þætti inn.

Við erum að fjalla um gríðarlega mikilvæg atriði í þessu sambandi og það er alveg ljóst og kom mjög vel fram á fundi sem atvinnuveganefnd átti með fulltrúum sveitarstjórna fyrir austan um daginn að mjög er horft til þess, einmitt út frá byggðalegu sjónarmiði, hversu mikilvægt er fyrir þessa sveit að fá svona framkvæmd inn í sveitarfélagið. Það er alrangt sem kom fram hjá hv. þm. Þór Saari áðan að þetta yrði ekki til þess að efla atvinnulíf og mannlíf á þessu svæði. Það gefur náttúrlega augaleið að það mundi gera það. Þetta eru þættir sem mjög mikilvægt er að tekið sé ríkt tillit til við mat á virkjunarkostum og verður að tryggja að það sé gert við vinnu rammaáætlunar.

Almennt var tekið tillit til þessara þátta í mati á öðrum virkjunarkostum þannig að ég held að hið (Forseti hringir.) faglega vinnulag hafi verið með mjög gott og við getum verið tiltölulega sátt við það, en við eigum að horfa gagnrýnið á það og gera allt til þess að bæta það í næstu skrefum. (Forseti hringir.) En það fór fyrst og fremst að bera á tortryggninni eftir að ráðherrarnir tóku málið til sín. Það er svolítið eðli vinstri manna í þessum málum, hefur mér þótt oft á tíðum, að (Forseti hringir.) reyna að drepa málinu á dreif. Þeir segja: Það þarf að skoða þetta betur, (Forseti hringir.) það þarf að velta þessu betur fyrir sér, og drepa þannig málinu á dreif.