141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Þingmaðurinn situr í hæstv. atvinnuveganefnd og mig langar því til að spyrja hann hvort hann hafi einhver tíðindi af því hvort að boða eigi til sameiginlegs fundar í umhverfis- og atvinnuveganefnd eins og var farið fram á í gær. Ég veit að atvinnuveganefnd fundaði í hádeginu en mér skilst að ekki hafi verið tekin á dagskrá sú ósk að ræða rammaáætlun og fá fulltrúa ASÍ til þess að koma til fundarins, í ljósi þeirra atburða sem gerðust í gær. Það er of seint að funda í þessum nefndum þegar þetta mál verður útrætt og farið í atkvæðagreiðslu þannig að mig langar að inna þingmanninn eftir þessu.

Annars á sér stað ansi spennandi atburðarás úti í samfélaginu á kostnað ríkisstjórnarinnar. Eins og við höfum farið yfir í ræðum í gær og í dag þá var það í fyrsta lagi hv. þm. Árni Páll Árnason sem lét hafa eftir sér í gær að íslenska þjóðin ætti betra skilið en þessa ríkisstjórn og hann er fyrrverandi hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar. Í öðru lagi er þessi mikla andstaða verkalýðshreyfingarinnar við svik ríkisstjórnarinnar, sem endaði á því um tvöleytið að tilkynning birtist frá forseta ASÍ þar sem hann sagði sig úr Samfylkingunni, hvorki meira né minna. Það er ekki góður bragur á lýsingum hans á Samfylkingunni og kemur hér fram, með leyfi forseta, að: „Það afskiptaleysi, áhugaleysi, skilningsleysi og á stundum bein andstaða flokksforustunnar við mikilvæga hagsmuni almenns launafólks hefur fyllt mælinn.“

Hvað finnst hv. þingmanni um þetta? Er ekki farið að brotna of mikið undan þessari norrænu velferðarstjórn til að henni sé sætt yfir jól og áramót?