141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar og er þingmanninum sammála. Miðað við fortakslaust skilningsleysi ríkisstjórnarinnar á þeim vandræðum sem hún stendur nú frammi fyrir, að hafa jafnvel ekki meiri hluta í þessari rammaáætlun, stjórnarskrármálið er að fara úr böndunum því að Feneyjanefndin hefur gefið sér að minnsta kosti þrjá mánuði til að fara yfir frumvarp til stjórnarskipunarlaga og svo framvegis, fiskveiðistjórnarkerfisfrumvarpið í uppnámi, þá raunverulega skil ég ekki hvað það er sem heldur þessari ríkisstjórn við völd annað en hrein og bein valdasýki.

Ég sagði í ræðu í gær að það mætti líkja þessu við að ríkisstjórnin sé nokkurs konar plága á íslensku þjóðinni. Hún er ekki að hugsa um almannahag. Það er ekki verið að hugsa hér um almannahag með þessum vinnubrögðum sem hún beitir, bæði þingmenn og þjóðina, Samtök atvinnulífsins, verkalýðshreyfinguna og svo framvegis.

Það hefur gerst einu sinni í sögunni að — þegar Hermann Jónasson komst upp á kant við verkalýðsforustuna, fór hann til Bessastaða og skilaði umboði sínu og var þá boðað til kosninga. Ef þessi ríkisstjórn ætlar að halda svona áfram hlýtur forseti Íslands að skoða það alvarlega að mynda utanþingsstjórn, því að það er líka dæmi fyrir því. Það er að skapast hér fortakslaus atburðarás undir handleiðslu þessarar ríkisstjórnar. Málið er mjög alvarlegt. Það er ekki einasta að við sitjum uppi með miklar náttúruhamfarir á liðnum árum, ég er að vísa hér til jarðskjálfta og eldgosa, heldur erum við með ríkisstjórn sem er að skapa og valda meiri skaða heldur en þetta allt samanlagt, sem er alvarlegt.

Varðandi sameiginlegan fund í umhverfis- og atvinnuveganefnd, er ekki rétt að stjórnarandstaðan taki sig saman og biðji sameiginlega um þennan fund? Ef mig misminnir ekki þá þarf þrjá þingmenn í hverri (Forseti hringir.) nefnd til að knýja fram fund í þeim. Er ekki rétt að fulltrúar stjórnarandstöðunnar setjist niður og reyni að knýja fram þessa fundi?