141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að það þarf þrjá þingmenn og þá ber formanni viðkomandi nefndar að taka tillit til þeirrar beiðnar og halda fund. Ég hef reyndar ekki neina trú á öðru, miðað við það hvernig hv. þm. og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur höndlað sín nefndarstörf, en að hún taki tillit til beiðninnar sem hefur komið fram og boði fund hið fyrsta. (Gripið fram í: Rétt.) Ég vona að við þurfum ekki að beita einhverjum svona atriðum í þingsköpum til að knýja fram fund. Hún hefur sýnt af sér að vera málefnaleg í umræðu og þó að skoðanir okkar liggi ekki alltaf saman í stjórnarandstöðunni og hennar, til dæmis í þessu máli, þá treysti ég nú á það að hún muni boða þennan fund.

Ég held að það sé mikilvægt að þessi fundur verði sameiginlegur. Báðar nefndirnar hafa fjallað mjög ítarlega um þetta mikilvæga mál og eðlilegt er að þær fundi báðar með aðilum vinnumarkaðarins út af þessu. Ég held að mjög mikilvægt sé að meiri hlutinn hér á þingi taki tillit til okkar sjónarmiða þegar við óskum eftir því að umræðu um þetta mál verði frestað. Það hefur komið fram mjög öflug gagnrýni — og við skulum átta okkur á því að það er engin tilviljun að ASÍ setti fram gagnrýni sína á ríkisstjórnina í gær, þar sem þeir gera athugasemdir við eina 8 liði sem ekki hafa gengið eftir að þeirra mati varðandi yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga þann 5. maí 2011.

Ég hef farið yfir gagnrýnina hér í ræðu minni og það er alveg augljóst þegar hún er lesin að ríkisstjórnin hefur gengið á bak orða sinna og það er engin tilviljun að ASÍ setti hana fram í gær. Það er einmitt vegna umræðunnar sem er hér í þinginu, um kannski eitt stærsta grundvallaratriðið sem snýr að því að ríkisstjórnin geti staðið við gefin fyrirheit. Þess vegna á að sýna launþegasamtökunum í landinu og minni hlutanum á þingi þá virðingu (Forseti hringir.) að fresta þessari umræðu. Þetta er ekkert dagsetningamál, það er ekkert að fara frá okkur. Þótt við frestum því í nokkra daga (Forseti hringir.) og tökum önnur mál til afgreiðslu á meðan, á meðan farið er yfir þau sjónarmið sem ríkja úti í samfélaginu.