141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að sú umræða sem farið hefur fram um þetta mál hafi á heildina litið verið mjög góð. Reyndar hefðum við viljað að fleiri stjórnarliðar tækju þátt í henni þannig að hægt væri að hafa umræðuna á svolítið breiðari grunni en þó hafa nokkrir stjórnarliðar tekið þátt og þökkum við að sjálfsögðu fyrir það.

Ég hef í síðari ræðum mínum bent á athugasemdir sem gerðar hafa verið við þetta mál í nokkrum af innsendum álitum. Vissulega eru þessi álit ekki einhlít, sumir vilja ganga lengra í verndun og friðun og að sjálfsögðu virðum við þeirra skoðanir, það er bara eðlilegt að vera ósammála um ákveðna hluti. Svekkelsið er samt það, og ég ítreka það enn og aftur, að rammaáætlun var ætlað að reyna að mæta þessum sjónarmiðum og ná sátt. Það tókst svona hálfa leið eða rúmlega það, síðan var vikið út af brautinni, og það er kannski það sem maður er hvað ósáttastur við. Síðan kemur í ljós að gerðar eru ýmsar athugasemdir við ferlið og af því verðum við einfaldlega að læra þegar við hefjum þessa vinnu á ný.

Ég held að það sé mikilvægt að gera okkur grein fyrir því að þetta er lifandi plagg eins og einhver sagði. Það er því mjög eðlilegt að um leið og þessi rammaáætlun verður samþykkt, innan fárra daga væntanlega, hefjist umræður um það hvernig eigi að vinna næstu rammaáætlun, hvaða breytingar þurfi að gera. Það er mjög eðlilegt. Ég held að það sé líka mjög eðlilegt úr því að málið er komið í þennan farveg að einstakir þingmenn, þar á meðal sá er hér stendur, líti svo á að þessi áætlun sé fyrst og fremst pólitísk yfirlýsing stjórnarflokkanna sem nú eru við völd. Það er ósköp eðlilegt að þeir sem telja að rangt hafi verið af hálfu ráðherranna að færa sex kosti milli flokka, úr nýtingu í bið, eða þeir sem eru ósáttir við eitthvað í þeirri flokkun, velti fyrir sér hvort það sé verjandi af öðrum stjórnarflokknum að gera slíkt, flokki sem hefur gjarnan lýst því yfir að hann sé meira atvinnuþenkjandi en hinn, þ.e. Samfylkingin. Er ekki ljóst að þeim flokki er ekki treystandi til að fylgja eftir slíkri umræðu og styðja við atvinnulíf í landinu þó svo að um það sé talað á hátíðisstundum? Samfylkingin hefur vitanlega verið frægust fyrir að vera flokkur útrásarinnar, styðja við útrásarvíkingana einna helst. Hún gerði kröfur um að hvergi yrði slegið af því að hjálpa fyrirtækjum eða styðja við útrásina eins og frægt er orðið.

Að klára rammaáætlunin er að sjálfsögðu verkefni okkar á Alþingi, það er það sem við erum að reyna að gera. Við sem viljum þessa sex kosti í annan flokk eða í það minnsta einhverja þeirra munum berjast fyrir því að röðuninni verði breytt og hún löguð hið fyrsta. Eins má ganga út frá því að öll rammaáætlunin verði tekin upp að nýju og það er í raun rétt að gera það samkvæmt lögum. Það er búið að gefa það fordæmi. Ég hygg að ef menn ætla sér að koma í veg fyrir að framkvæmdarvaldið fikti í þessu í framtíðinni þurfi augljóslega að breyta lögunum. Það er að mínu viti eðlilegra að ef umræða á að fara fram um breytingar á rammaáætlun þegar hún kemur frá sérfræðingunum eða verkefnisstjórn fari hún beint inn á Alþingi og verði tekin þar.

Að því sögðu vil ég leggja áherslu á það sem ég hef áður sagt að það þarf að fara yfir umgjörðina sem sett var um verkefnið af þessu fína og góða fólki sem tók það að sér, og kannski mun eitthvað af því fólki vinna að því aftur í framtíðinni eða aðrir taka við. Umgjörðin utan um vinnuna, mælikvarðar, viðmiðanir og annað slíkt liggi skýrt og klárt fyrir þegar vinnan hefst þannig að ekki þurfi að finna upp hjólið jafnóðum. Mér sýnist að sú hafi verið raunin í sumum tilvikum með vinnuna við rammaáætlun. Þeir sem tóku verkefnið að sér hafi þurft að útbúa mælikvarða og setja viðmiðanir jafnóðum og vinna fór fram. (Forseti hringir.) Það er að mínu viti ekki gott og er vinnunni að einhverju leyti til vansa en það er ekki fólkinu að kenna sem tók þetta að sér.