141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:24]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Mig langar að snúa mér að öðru máli sem er yfirlýsing ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga til þriggja ára sem gefin var út 5. maí 2011 og er gagnrýnd núna af ASÍ. Hún hefur reyndar haft þær afleiðingar að forseti ASÍ hefur sagt sig úr Samfylkingunni, sem er auðvitað stórfrétt, og sýnir kannski í hvers lags ógöngur ríkisstjórnin er komin og hversu mikið vantraust ríkir nú gagnvart ríkisstjórninni í samfélaginu öllu.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir meðal annars að stjórnvöld skuldbindi sig til þess að vinna af einurð að því að leggja grunn að varanlegum hagvexti og velferð og meginatriðið sé að örva hagvöxt með arðsömum og sjálfbærum fjárfestingum. Það er til dæmis komið sérstaklega inn á fjárfestingar í orkumálum, að það þurfi að örva þær og tryggja frekari fjárfestingu á þeim vettvangi, og að stjórnvöld séu reiðubúin til samstarfs við samtök launafólks og atvinnurekendur um sókn í atvinnumálum. Í yfirlýsingunni er sagt að þess sé fastlega vænst að samningar takist fyrir lok árs 2011 um a.m.k. tvö umtalsverð fjárfestingarverkefni sem ráðist verði í, þar af annað á Norðausturlandi og að framkvæmdir við þau geti hafist strax á árinu 2012. Síðan höfum við fjárfestingaráætlun hæstv. ríkisstjórnar sem tekur til ýmissa þátta og þess sem ég hef viljað kalla gæluverkefni.

Ef við lesum þetta allt er þá hægt að túlka þetta með öðrum hætti en ASÍ gerir, að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við gerða samninga, hafi rofið þá sátt sem gerð var við kjarasamninga vorið 2011? Eru einhverjar líkur á því að sú fjárfestingaráætlun sem ríkisstjórnin (Forseti hringir.) hefur kynnt okkur fyrir næstu þrjú ár, 2013–2015, uppfylli þau markmið sem koma fram í yfirlýsingu stjórnvalda (Forseti hringir.) við gerð kjarasamninga?