141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Við höfum bent á, síðast í andsvörum hv. þingmanna Jóns Gunnarssonar og Gunnars Braga Sveinssonar, að rammaáætlun tengist með beinum hætti stöðunni á vinnumarkaði og stöðunni í efnahagsmálum. Rammaáætlun er í beinum tengslum við þá alvarlegu stöðu sem er á þeim vettvangi. Þau orðaskipti og sá trúnaðarbrestur sem greinilega er fyrir hendi milli forustu launþegahreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar snýst meðal annars um ágreining um niðurstöðu rammaáætlunar. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar hafa verið á þann veg að reyna að gera forustu Alþýðusambandsins tortryggilega. Hæstv. forsætisráðherra segir að forusta launþegahreyfingarinnar í landinu sé ekki trúverðug í þessari umræðu. Svipuð orð hefur hæstv. forsætisráðherra haft uppi, af öðru tilefni reyndar, um forustu vinnuveitendasamtakanna og hvert dæmið á fætur öðru hefur komið um að forustumenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, hafa svarað með svipuðum hætti þeim sem gagnrýnt hafa ríkisstjórnina á ýmsum forsendum.

Við í stjórnarandstöðunni hér á þingi kippum okkur ekkert upp við það, þetta er daglegur veruleiki fyrir okkur. En það eru hins vegar nokkur tíðindi þegar helstu samtök á vinnumarkaði, helstu lykilsamtök í sambandi við þróun mála á vinnumarkaði í kjaramálum og efnahagsmálum, eru afgreidd með þessum hætti af forustu ríkisstjórnarinnar. Forusta vinnuveitenda, forusta Samtaka atvinnulífsins, er ótrúverðug að mati hæstv. forsætisráðherra, svo að maður tali nú ekki um hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sem hefur ábyggilega einhver enn dramatískari ummæli uppi um þá forustu. Sama á við um forustu launþegahreyfingarinnar.

Satt að segja er það orðið þannig að sú ríkisstjórn sem nú situr — sem reyndar er, bara svo að það sé rifjað upp, minnihlutastjórn; formlega séð er hún minnihlutastjórn vegna þess að þó að stöku maður hér í þingi utan flokka hyggist hugsanlega verja hana vantrausti þá er formlega um að ræða minnihlutastjórn í landinu — er að einangrast sífellt meira. Rammaáætlun, sem við höfum til umræðu hér í dag, er aðeins eitt af mörgum dæmum um það.

Hæstv. forseti. Það er freistandi að rifja upp hver er staða stærstu mála þessarar ríkisstjórnar. Er rammaáætlunin, sem hér er í fullkomnu uppnámi, fullkominni upplausn, þó ekki það mál ríkisstjórnarinnar sem lengst er komið? Eru hin stóru málin ekki í enn meira uppnámi, ekki einu sinni tilbúin til umræðu í þinginu?

Hvað með sjávarútvegsmálin, hæstv. forseti? Hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra ætlar kannski að leggja þau fram fyrir jól þó að andstaða sé fyrir hendi í samstarfsflokki hans í ríkisstjórn. Það er staðan á þeim málum, forgangsmáli ríkisstjórnarinnar. Og stjórnarskrármálið, það er samfelld sorgarsaga sem ekki sér fyrir endann á. Allt í uppnámi og ringulreið í umfjöllun nefnda hér í þinginu. Raðir af fræðimönnum og sérfræðingum koma fyrir þingnefndir og vara eindregið við því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og leggja til verulegar breytingar á því, margir hverjir. Málið er sent til Feneyjanefndarinnar og okkur er sagt að niðurstaða eigi að koma fyrir janúarlok. Svo upplýsir Ríkisútvarpið um að það sé tæknilega útilokað að niðurstaða fáist fyrr en einhvern tímann í mars. Þetta eru stóru mál ríkisstjórnarinnar. Hvað stendur eftir af áformum hennar? Er það kannski skjaldborgin? Er það skjaldborg heimilanna? Hvað ætli hafi gerst í því?

Hæstv. forseti. Þeir atburðir sem átt hafa sér stað undanfarinn sólarhring, yfirlýsingar forustu ASÍ, yfirlýsingar þess frambjóðanda til formennsku í Samfylkingunni sem mests fylgis nýtur, hv. þm. Árna Páls Árnasonar, og annað gefur vísbendingar um að hin innri vandamál ríkisstjórnarinnar að þessu leyti séu jafnvel enn meiri en við sáum fram á. Spurningin er þessi, hæstv. forseti: Hvaða áhrif hefur það á framgang þess máls sem við ræðum hér í dag, hvaða áhrif hefur það á framgang rammaáætlunar?