141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ljósi þessarar einu spurningar hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur vil ég geta þess að ég er ekki úrkula vonar um að hv. formaður umhverfisnefndar verði við beiðni okkar. Ég vona bara að það verði fyrr en heyra mátti á henni á fundi nefndarinnar nú í hádeginu. Ég tek fram að við fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í umhverfis- og samgöngunefnd, og reyndar fulltrúar þessara flokka í atvinnuvega- og nýsköpunarnefnd, munum halda áfram að þrýsta á að þessi fundur verði haldinn sem fyrst vegna þess að okkur finnst það mikilvægt. Okkur finnast tengslin við umræðuefni þingsins hér í dag vera náin og við teljum mikilvægt að þessi fundarhöld eigi sér stað áður en umfjöllun um rammaáætlun lýkur hér í þinginu.

Ég lít ekki svo á að hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar hafi hafnað erindi okkar (GLG: Rétt.) en hins vegar játa ég að ummæli hennar á fundi í hádeginu í dag, um að þetta væri ekki forgangsmál og ýmislegt yrði nú afgreitt áður o.s.frv., gerði mig svartsýnni á að okkur tækist að efna til þessa fundar meðan fundarefnið er enn þá, má segja, aktúelt eða á meðan það á við vegna tengslanna við það mál sem hér er til umræðu.

Um stöðuna að öðru leyti varðandi þetta mál þá gerði ég ráð fyrir því, þegar 2. umr. hófst, að ríkisstjórnarflokkarnir væru búnir að ganga þannig frá málum að þeir hefðu tryggt sér meiri hluta fyrir því hér í þinginu. Mér sýnast atburðir síðustu daga og sólarhringa frekar benda til þess að sú samstaða sem þó hafði náðst um þetta efni milli ríkisstjórnarflokkanna sé eitthvað að gliðna. Ég heyri ekki betur en þeir sem hafa sérstakar skoðanir og sérstaka fyrirvara innan ríkisstjórnarflokkanna séu að skerpa áherslur sínar. Þá veltir maður fyrir sér hvernig atkvæðagreiðslur fara þegar breytingartillögur byrja að berast og verður spennandi að sjá.