141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Hv. þingmaður kom inn á það að ekki var fundur í hv. umhverfisnefnd vegna þess að málið þykir ekki vera í neinum forgangi. Þess vegna spyr ég: Út af hverju er málið þá á dagskrá þingsins akkúrat núna? Hér eru ákveðnir aðilar sem þurfa greinilega að koma fyrir nefndina til að útskýra sjónarmið sín betur, þar á meðal forustumenn Alþýðusambands Íslands miðað við auglýsingu í gær. Þess vegna skil ég ekki út af hverju málið er ekki hvílt, tekið af dagskrá og farið að ræða hluti sem skipta meira máli. Við þurfum að koma fjárlögum í gegnum þingið fyrir áramót. Hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon var með svo mikinn hræðsluáróður um daginn að hann taldi að ekki yrði hægt að borga út laun um áramótin þegar við ræddum fjárlög í 2. umr.

Þetta eru alveg dæmalausar hótanir sem við þingmenn þurfum sífellt að sitja undir frá þessari ríkisstjórn. Það er stjórnunarstíllinn og við höfum séð í dag og í gær á hvaða leið ríkisstjórnin er. Hún er í ófriði en ekki í friði. Fer fram með mikilli frekju og yfirgangi og ef allir lúta ekki í gras fyrir henni eru viðkomandi aðilar teknir niður, skammaðir og reynt að taka af þeim æruna. Þannig eru vinnubrögðin hjá þessari ríkisstjórn, því miður, virðulegi forseti. Því vísa ég í orð hv. þm. Árna Páls Árnasonar: Hvers eigum við að gjalda að hafa slíka ríkisstjórn?

Ég tel að ríkisstjórnin hafi ekki meiri hluta lengur í þinginu, það verður að láta á það reyna. Það reynir líklega fyrst á það í þessu máli ef haldið verður áfram með það, þá í síðasta lagi í fjárlagaumræðunni. Ég tel að ríkisstjórnin sé jafnvel að lifa sína síðustu daga nú vegna þess að ekki verður við þetta unað. Ég spyr hv. þm. Birgi Ármannsson að lokum: Telur hann að ríkisstjórnin komi til með að hanga eins og hundur á roði á völdunum fram að auglýstum kosningadegi eða telur hann að þingrof sé væntanlegt?