141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er löngu hættur að spá þessari ríkisstjórn, hvað eigum við að segja, ótímabærum dauða, ef svo ósmekklega má til orða taka. Ég held að hún hangi saman á einhverjum lögmálum sem eru jafnvel áður óþekkt í íslenskum stjórnmálum. Miðað við þann ágreining sem verið hefur milli ríkisstjórnarflokkanna og innan þeirra hefði hún átt að fara frá fyrir löngu. Hún lifir sem minnihlutaríkisstjórn í augnablikinu og enn virðist hún hafa varadekk eða björgunarhring hér í þingsalnum sem gerir það að verkum að þrátt fyrir að stuðningur við hana sé í raun brostinn þá met ég stöðuna ekki svo að vantrauststillaga mundi fella hana. Hitt er annað mál að í báðum flokkunum hljóta menn að hugsa sinn gang þegar ástandið er með þessum hætti. Hv. þm. Árni Páll Árnason gerir það greinilega, miðað við færsluna á internetinu sem hv. þingmaður vísaði til hér áðan, en þar segir, með leyfi forseta:

„Hver er afleiðingin? Hrikalegri ágreiningur milli ráðherra ríkisstjórnar og forustu ASÍ en dæmi eru um síðustu áratugi. Þrasað er og öskrast á um allar staðreyndir og forsendur. Er ekki tími til að breyta um verklag? Eigum við ekki betra skilið?“

Þetta segir maðurinn sem hefur miðað við skoðanakannanir forskot, og að því er virðist verulegt forskot, í væntanlegu formannskjöri innan annars stjórnarflokksins. Þetta er auðvitað mjög alvarleg staða og ég hefði haldið að það væri stjórnarflokkunum í hag að gera hlé á þessari umræðu um rammaáætlun þannig að þeir hefðu tækifæri og tíma til að ræða saman innan sinna flokka og milli flokkanna um framhald stjórnarsamstarfsins; hugsanlega reyna að brúa brýr, byggja brýr eða sleikja sárin.