141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að reyna að nýta þann takmarkaða tíma sem ég hef til að tala um þann þátt þessa máls sem snýr að rammaáætlun. Það er freistandi að velta fyrir sér stöðu ríkisstjórnarinnar almennt og ég játa að í andsvari við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hér áðan fór ég kannski að ræða málin fullvítt miðað við tilefnið. En auðvitað hangir þetta samt allt saman.

Það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson segir um efnahagsstefnuna eða skort á efnahagsstefnu er í nánum tengslum við rammaáætlun vegna þess að sá þáttur atvinnuuppbyggingar í landinu sem snýr að nýtingu orkuauðlinda ræðst mjög af niðurstöðu í rammaáætlunarmálinu. Ef það er meðvituð og eindregin ákvörðun ríkisstjórnarinnar eða ríkisstjórnarflokkanna, og þeirra sem stundum hlaupa undir bagga með þeim hér í þinginu, að stöðva uppbyggingu á þessu sviði þá hefur það efnahagslegar afleiðingar. Það er einmitt þess vegna sem Alþýðusamband Íslands lætur sig þessi mál varða.

Það er nákvæmlega þess vegna sem Alþýðusamband Íslands gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir þá stefnumörkun sem birtist í þessari rammaáætlun vegna þess að Alþýðusambandið hefur áhyggjur af málinu, bæði fyrir hönd sinna félagsmanna, hvort sem um er að ræða faglærða eða ófaglærða starfsmenn sem hugsanlega eiga beinna hagsmuna að gæta í framkvæmdum á þessu sviði. En auðvitað er það líka vegna hinna efnahagslegu afleiðinga virkjunarstopps og stóriðjustopps sem óhjákvæmilega mun hafa neikvæð áhrif á efnahagsþróunina hér á næstu árum og leiða til verri lífskjara launamanna í landinu almennt.