141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að deila um þessi atriði við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson. Við kunnum að velja ólík orð til að lýsa ástandinu en ég ætla ekki að efna til ágreinings við hann um þessa þætti. Ég held að við getum þvert á móti verið sammála um að skortur á efnahagsstefnu af hálfu ríkisstjórnarinnar er tilfinnanlegur og þar sem stefnumörkun er fyrir hendi hefur hún beinst gegn atvinnulífinu en ekki verið í þágu þess.

Það er stóralvarlegt, af því að það er einmitt á efnahagssviðinu sem við þurfum að vinna mikilvæg verkefni á næstu árum, ef við ætlum að tryggja að lífskjör hér á Íslandi verði í einhverjum takti við það sem gerist í nágrannalöndunum. Það er auðvitað leiðin sem við höfum til að halda í okkar unga fólk og stuðla að því að það fólk sem flust hefur úr landi á síðustu árum komi til baka, sem er gríðarlega mikilvægt. Auðvitað er orkufrekur iðnaður og uppbygging og virkjun orkulinda landsins ekki nema brot af því sem við þurfum að gera. Það er ekki nema brot af því.

Það er svo ótal margt sem við þurfum að gera í þágu atvinnulífsins og það sem við erum að ræða hér í tengslum við rammaáætlun er bara hluti af því. En það er hins vegar mikilvægur hluti. Það er mikilvægur hluti þegar við horfum til þess að Ísland er ríkt land af auðlindum. Forsenda þess að við getum haldið uppi góðum lífskjörum til framtíðar er það að við nýtum þessar auðlindir með skynsamlegum hætti. Rammaáætlun er leið til að nálgast þessa nýtingu þannig að áfram verði skynsamleg uppbygging á þessum sviðum. Árangur áfram — eins og ágætur flokkur hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar orðaði það einu sinni; árangur áfram í uppbyggingu. Það er mikilvægt. Auðvitað er það bara hluti af heildarmyndinni. Það er ekki eina lausnin, langt í frá en það er mikilvægt sem liður í áframhaldandi uppbyggingarstarfi á efnahagssviðinu.