141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er búið að vera afar fróðlegt að fylgjast með umræðunni í dag og þeirri atburðarás sem komið hefur mikið til tals, bæði í fyrirspurnatíma í morgun og í umræðu í fjölmiðlum. Það er hið nýja stríð sem ríkisstjórnin er búin að finna sér, stríðið við launþegasamtökin, við ASÍ sem þau persónugera í formanni samtakanna. Rammaáætlun er eitt stærsta og mikilvægasta málið á þinginu. Ef ferlið hefði bara verið klárað í þeim anda sem það var unnið í í fjöldamörg ár, ef við og hæstv. ríkisstjórn hefðum bara borið gæfu til að klára ferlið á þeim nótum er ég sannfærð um að við hefðum getað náð samstöðu og náð þeim markmiðum sem lagt var af stað með í upphafi, þ.e. að ná sátt um vernd og nýtingu íslenskra náttúruauðlinda. Það er svo ótrúlega sorglegt að verða vitni að því að því að það skuli ekki hafa verið gert.

Það varð ekki. Málið er komið í mikið ólag. Það er heimatilbúið ólag og það eru heimatilbúin átök nákvæmlega eins og nýjasta stríð ríkisstjórnarinnar, stríðið við ASÍ, er dæmi um. Það er ýmislegt sem Alþýðusambandið hefur að athuga eins og sást á auglýsingu þeirra í fjölmiðlum í gær. Eitt af þeim atriðum var einmitt svik og gagnrýni á meðferð rammaáætlunar. Af hverju skyldi það vera? Er Alþýðusambandið einhver allsherjarvirkjunarsinni og því þurfi ríkisstjórnin að ganga á bak orða sinna við Alþýðusambandið vegna þess að hún sé ósammála að því leytinu til? Nei, ég held að Alþýðusambandið, sem ber fyrst og fremst hag umbjóðenda sinna fyrir brjósti, sé umhugað um atvinnusköpun, að bæta kjör launafólks í landinu og tryggja atvinnustig í þessu landi, verðmætasköpun og auknar tekjur félagsmönnum þeirra til handa.

Ítrekað hefur verið vísað til skýrslu í umræðunni sem ráðgjafarfyrirtækið Gamma tók saman þar sem þeir virkjunarkostir — ég vona að ég fari rétt með, ég hef ekki séð þessa skýrslu sjálf — sem flokkaðir voru í biðflokk og koma þar með ekki til framkvæmda á næstu árum, hafi í för með sér 270 milljarða króna tap og glataða fjárfestingu fyrir Ísland, þ.e. að Ísland verði af 270 milljörðum króna sem annars hefðu komið inn í þjóðarbúið í formi fjárfestingar ef þessir virkjunarkostir hefðu verið nýttir. Það eru gríðarlegar tölur og ég þarf að verða mér úti um skýrsluna til að athuga hvort störfin séu tiltekin þar og hversu mörg störf þessir 270 milljarðar króna hefðu getað gefið, að ég tali nú ekki um skatttekjurnar sem ríkissjóður hefði af þessari fjárfestingu.

Álverið í Helguvík eitt og sér gefur ríkissjóði milljarð á mánuði þegar það er komið til framkvæmda. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn í þessum ræðustól og segja: þegar það verður komið til framkvæmda. Milljarður á mánuði, 12 milljarðar á ári í skatttekjur plús afleiddu áhrifin og aukin umsvif sem fylgja þeirri fjárfestingu — 12 milljarðar á ári í skatttekjur. Ríkisstjórnin boðaði það um daginn að hún ætlaði að skapa 2.200 störf til að koma til móts við þá atvinnuleitendur sem verið hafa á atvinnuleysisskrá í þrjú ár og sem munu að óbreyttu detta út af skránni núna um áramótin. Það er kannski leið ríkisstjórnarinnar til að minnka atvinnuleysi. Þarna hverfa einhver hundruð einstaklinga af atvinnuleysisskránni. Þá vænti ég þess að hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra komi og segi að þetta sé ríkisstjórninni að þakka að fækkað hafi á skránni. Auðvitað leysir það ekki atvinnuleysið og það leysir ekki vanda þessa fólks. En ríkisstjórnin ætlar að gera það, ekki samt með því að láta atvinnulífið í friði og leyfa því að blómstra og skapa verðmæti úti í þjóðfélaginu, nei, ríkisstjórnin ætlar að skapa 2.200 störf á kostnað skattborgaranna. Ég vil taka fram að ég hef alls ekki horn í síðu þeirra einstaklinga sem um ræðir, ég óska þeim góðs gengis og vona að þessi störf verði þeim til gagns og komi í staðinn fyrir þær tekjur sem þeir missa þegar þeir missa bótaréttinn, en ég hefði frekar viljað sjá 2.200 störf verða til úti í samfélaginu, úti í atvinnulífinu. Ég held að það hefði ekkert verið svo flókið. Ef við hefðum t.d. unnið öðruvísi í rammaáætluninni, ef neðri hluti Þjórsár hefði verið virkjaður, eins og öll rök benda til þess að eigi að gera, gæti atvinnulífið hér verið komið á fullan skrið.

Varðandi neðri hluta Þjórsár er það þyngra en tárum taki að sjá þeirri framkvæmd frestað, þó að það séu ekki nema tvær efri virkjanirnar Hvamms- og Holtavirkjun sem frestað verður. Ég get fallist á þau sjónarmið að rannsaka þurfi að laxagengdina í neðsta hluta Þjórsár, en að færa allar þrjár virkjanirnar úr nýtingarflokki í biðflokk er ekkert annað en pólitísk ákvörðun og sú ákvörðun er einfaldlega röng.

Ég var í Þorlákshöfn í hádeginu. Ég fundaði þar með fólki sem hefur miklar áhyggjur af stöðu atvinnumála í Þorlákshöfn. Við höfum heyrt af nýlegum uppsögnum í sjávarútveginum þar. Ég fékk spurningarnar: Hvað með orkunýtingu á Suðurlandi? Hvað með stórskipahöfn í Þorlákshöfn? Hvað með að nýta orkuna sem við fáum hér til atvinnuuppbyggingar á Suðurlandi? Ég svaraði þannig: Jú, ég er mjög hlynnt uppbyggingu stórskipahafnar í Þorlákshöfn og ég og hæstv. forseti erum meðflutningsmenn á þingsályktunartillögu þess efnis. En ég sagði að það væri einfaldlega ótímabært að við værum að þrátta um það hvar nýta eigi orkuna sem verður til á Suðurlandi. Við þurfum fyrst að sannfæra þá sem hér eru við völd núna um að virkja skuli á Suðurlandi, það er fyrsti slagurinn sem við verðum að taka og það er mikilvægasti slagurinn. Síðan bíður fullt af atvinnutækifærum á svæðinu, uppbygging í Þorlákshöfn og annars staðar á Suðurlandi, á Suðurnesjum, í startholunum og ég er sannfærð um að hún gæti leyst úr læðingi mikla krafta og að þeim umsvifum geti fylgt blómlegt atvinnulíf og ferðamennska, ekki síst á Reykjanesi. Við sjáum þar hvað ferðaþjónusta og orkunýting geta farið vel saman þar sem HS Orka hefur staðið í uppbyggingu í tengslum við ferðaþjónustuna.