141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég get alveg tekið undir það sem hann sagði. Mér hefur fundist umræðan og vinnulag stjórnarflokkanna við rammaáætlun bera þess merki að hún snúist ekki um vernd og nýtingu náttúruauðlinda í þeirra huga heldur sé hún bara áætlun um vernd náttúruauðlinda. Það var ekki tilgangurinn með henni. Við erum með náttúruverndaráætlanir. Við erum með alls konar áætlanir til verndar umhverfinu og rammaáætlun átti ekki bara að snúast um náttúruvernd.

Ég vek athygli á því að í frumvarpi því sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram, sem hefur ekki fengist út úr nefndinni og ég hefði viljað sjá rætt með þessu frumvarpi, er í greinargerð vitnað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá árinu 2003 vegna þess að rammaáætlun er mun eldri en sitjandi ríkisstjórn. Mig langar að lesa, með leyfi forseta, að sett var sem eitt af helstu markmiðum að lokið yrði við:

„… rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þannig að heildstætt yfirlit fáist yfir nýtingarmöguleika landsmanna á þeim miklu verðmætum sem felast í beislun orku. Orkulindir hvers landsvæðis verði nýttar af skynsemi til að byggja upp atvinnu og efla mannlíf. Áhersla verði lögð á að saman fari nýting orkulindanna og náttúruvernd.“

Þetta er hið raunverulega inntak sem á að vera í rammaáætluninni en ríkisstjórnin hefur vikið frá því og nú snýst hún um eitthvað allt annað. Nú snýst hún um að taka álitlega kosti af pólitískum ástæðum úr nýtingarflokki vegna einhverrar (Forseti hringir.) hreinstefnu umhverfisstefnu — þetta var mjög skrýtið orðalag og ég ætla að geyma það þar til í næsta svari. [Hlátur í þingsal.]