141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að sú stefna eða það stefnuleysi sem ríkisstjórnin viðhefur í efnahags- og atvinnumálum landsins sé líklegt til þess að hér verði sá hagvöxtur sem þó er spáð, upp á 2,5%, sem er auðvitað allt of lítill. Hann er aðeins helmingur af því sem hann þyrfti að vera, hann þarf að vera í kringum 5%, hafa menn sýnt fram á, til þess að við framleiðum nóg til að geta staðið undir skuldbindingum okkar, þ.e. skuldum, og líka til að standa undir vexti velferðarkerfisins sem ég held að megi fullyrða að við séum öll stuðningsmenn að, þó getur verið að á því séu skiptar skoðanir og þá getur hv. þingmaður komið með sín sjónarmið varðandi það. En við framsóknarmenn teljum alla vega mjög mikilvægt að grundvöllur atvinnulífsins sé nægilega traustur til að geta staðið undir öflugu velferðarkerfi, aukinni arðsemi og verðmætum störfum.

Það er því sérkennileg sú umræða um veiðigjöld og stjórn fiskveiða sem var hér síðastliðið vor þar sem yfir 90 athugasemdir bárust sem allar voru samhljóða nema ein frá Samfylkingarfélaginu í Reykjanesbæ, (Gripið fram í: Jú, jú.) heimabæ hv. þingmanns, og vöruðu við þessari leið. Nú þegar er búið að segja yfir 100 manns upp vegna veiðigjaldsins og aðstæðna á mörkuðum. ASÍ benti á að þessi stefna mundi leiða til viðvarandi þrýstings á krónuna, að hún mundi ekki styrkjast sem væri forsenda kjarasamninga, og benti jafnframt á að þessi leið væri röng.

Það sama á við um rammaáætlun. Finnst hv. þingmanni líklegt að þessi stefna eða stefnuleysi muni búa til einhver störf og standa undir 2,5% hagvexti? Eða trúir þingmaðurinn því að það verði áfram stefnan að taka við fólkinu þegar það er (Forseti hringir.) búið að vera atvinnulaust í þrjú ár eða búið að missa húsin sín og fara þá að setja plástra, en ekki taka á raunverulegum vanda samfélagsins?