141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:11]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég hef enga trú á því að sú stefna sem rekin er af núverandi ríkisstjórn skapi eitt einasta starf. Það er mjög umhugsunarvert hvernig staðan er núna þegar vinnumarkaðurinn er skoðaður, hversu margir skattgreiðendur á hinum almenna vinnumarkaði standa undir rekstri ríkisins. Við í þessum sal fáum launin okkar greidd af skattfé almennings. Tölurnar eru ótrúlegar þegar maður fer að rýna í muninn á almenna og opinbera kerfinu.

Ég vísaði til þess hér áðan í ræðu minni að ég hefði verið í Þorlákshöfn, fyrst að hv. þingmaður nefndi veiðigjöldin, og þar talaði ég við og heyrði í fólki sem fann á eigin skinni fyrir öllu því sem varað var við vegna veiðigjaldamálsins. Allt sem var sagt áður, um að veiðigjöldin mundu hitta lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki á landsbyggðinni verst fyrir, er að rætast. Menn eru meira að segja orðnir úrkula vonar um að fjöldinn allur af fyrirtækjum sem eru í svipaðri stöðu geti beðið þangað til í apríl í von um að þá komi ný stjórnarstefna. Menn eru hræddir um að þeir þurfi strax að fara að hagræða, að strax núna í vetur þurfi að segja upp fleira fólki ef ekki verður breyting á. Það er algjörlega óþolandi að verða vitni að því þar sem öll þessi vandræði eru fullkomlega heimatilbúin.