141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Já, spurningin var kannski svolítið óskýr ef hv. þingmaður hefur skilið það svo að ég hafi verið að gera upp á milli kosta. Það var ekki það sem ég meinti heldur að mér finnst rangt að hverfa frá hagkvæmasta kostinum í vatnsaflinu yfir í þetta háhitasvæði þarna suður með sjó. Að sjálfsögðu fagna ég líka að háhitasvæðið sé komið inn í nýtingarflokk því eins og hv. þingmaður fór yfir er þá hægt að hefja rannsóknir á því og það er vitað að þessi háhitasvæði þurfa meiri rannsókna við.

Ég gleðst að sjálfsögðu yfir þeirri þróun, en mér líst ekkert á tóninn hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna, þeim fáu sem hafa tjáð sig, að það sé búið að taka vatnsaflið og neðri hluta Þjórsár út og setja í biðflokk. Á meðan tala þingmenn Vinstri grænna þannig að kannski standi ekkert rosalega mikið til að fara að stíga einhver stórtæk framfaraskref á háhitasvæðunum á Suðurnesjum því að, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði um, það sé svo mikil rannsóknarvinna eftir og ekki sé hægt að fara af stað með hana strax.

Að mínu mati er þetta fyrst og fremst biðleikur og sátt til að friða Vinstri græna til að þeir hangi áfram inni í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Það hafa margir Vinstri grænir talað mjög fjálglega um Þjórsá, kallað Þjórsá móðurána á Íslandi og ég veit ekki hvað og hvað, en það má liggja á milli hluta. Þetta plagg birtist okkur svona og er mikil óánægja með það. Sorglegasta staðan er kannski sú að því var breytt frá því að verkefnisstjórnin skilaði af sér, en þetta eru náttúrlega vinnubrögð ríkisstjórnarinnar að þessu leyti.

Ég vildi gjarnan fá svar við seinni spurningunni sem ég var með varðandi þessa orku sem hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon (Forseti hringir.) telur vera inni í kerfinu en ekki sé hægt að selja.