141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:20]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að eitt af vandamálunum við uppbygginguna í Helguvík hefur verið vegna erfiðleika til að mynda við fjármögnun, en ég vil ekki rekja það til neins annars en þeirrar óvissu sem núverandi ríkisstjórn býður erlendum sem innlendum fjárfestum upp á. Þegar fyrirtæki er að leita sér fjármögnunar hjá fjármálastofnunum úti í heimi þá er sérstakt pólitískt óþægindaálag á fjármögnun til Íslands. Það greiðir ekki fyrir því að hér verði til störf og að hér komi fjárfesting inn í landið.

Varðandi orkuna þá held ég að við höfum full not fyrir orkuna sem finnst á Reykjanesi. Það eru óteljandi möguleikar til að nýta hana og bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa verið óþreytandi við að koma með hverja hugmyndina á fætur annarri, greiða fyrir margvíslegum tækifærum sem hafa svo á allt of mörgum stöðum stoppað vegna einhverrar kergju og ákvarðana sem ríkisstjórnin hefur tekið, það er hægt að nefna fjölmörg dæmi. Alltaf nefnt; það þarf eitthvað annað. Það er búið að prófa heilsutengda ferðamennsku, það er búið að prófa flugvélaverkefni sem var tvöföld óánægja með vegna þess að það var einkaaðili sem var með herflugvélar, það var algjörlega slegið út af borðinu.

Reykjanes varð fyrir tvöföldu áfalli. Ekki bara minnkaði atvinnan vegna hrunsins heldur eru menn búnir að gleyma því að árið 2006 hurfu 900 störf úr bæjarfélaginu þegar varnarliðið fór. Það er grunnurinn. Á því var tekið af miklum myndarskap strax þegar það gerðist og miklar áætlanir gerðar, líka með stofnun (Forseti hringir.) Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Þau áform hafa því miður strandað og þess vegna er atvinnuástandið eins og það er. En það eru fjölmörg tækifæri og með hækkandi sól og nýrri (Forseti hringir.) ríkisstjórn verður hægt að lagfæra það ástand vonandi mjög fljótt.