141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:22]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er svolítið sérstakt að ætla sér að halda áfram að ræða rammaáætlun í ljósi þess sem er búið að gerast hér síðastliðinn sólarhring og hvaða vitleysisgangur hefur verið viðhafður af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ekki bara vitleysisgangur heldur er í rauninni hreinn og klár dónaskapur hvernig hæstv. forsætisráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hafa hagað sér gagnvart Samtökum atvinnulífsins og sérstaklega ASÍ, sem leyfir sér að vera með sjálfstæða skoðun á því hvernig ríkisstjórnin hefur staðið við sína samninga og skuldbindingar, eins og það á í rauninni að gera og hefur alltaf sýnt stjórnvöldum aðhald.

Þegar ASÍ bendir á það með rökum að trekk í trekk hefur ríkisstjórnin ekki staðið við það samkomulag sem hafa verið gerð við Samtök atvinnulífsins þá ætlar allt um koll að keyra. Það er alveg ótrúlegt að fylgjast til dæmis með þeim orðaskiptum sem hafa átt sér stað á öldum ljósvakans á milli Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, og Steingríms J. Sigfússonar þar sem annað hvert orð af hálfu hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra er með endemum, ósvífið og dónalegt. Hann vænir forustumann ASÍ um lygar og fleira og fleira. Ég sæi það nú hafa gerst ef ráðherrar af hálfu annarra flokka, til dæmis Framsóknarflokks eða Sjálfstæðisflokks, hefðu verið með þennan endemis dónaskap í orðræðunni gagnvart aðilum á vinnumarkaði.

Ég velti því fyrir mér, og með þessu er ég ekki að segja — stjórnvöld geta vissulega haft aðrar skoðanir á að það sem er haldið fram af hálfu Samtaka atvinnulífsins sé með þeim hætti sem þau setja fram, en þessi framgangur af hálfu forustumanna ríkisstjórnar Íslands sýnir að það er mikil taugaveiklun í gangi, og þá kem ég inn á meðal annars þetta mál. Það er svo mikil taugaveiklun og við skynjum það sem erum hér í þinghúsinu meira og minna 24 tíma sólarhringsins að það er mikil viðkvæmni, það er mikil taugaspenna á milli stjórnarflokkanna. Af hverju skynjar maður það? Jú, það er meðal annars út af þessu máli, þetta er mál sem tók óralangan tíma að fara í gegnum ríkisstjórn. Við vitum að það hafa verið þingmenn innan Samfylkingarinnar, sem mér sýnist nú reyndar vera búið að reka heim í réttirnar, en menn voru framan af með mikla fyrirvara í þessu máli sem tengist rammaáætlun.

Við sjálfstæðismenn, og ég ítreka það sem við höfum sagt, teljum að beina eigi ferlinu í tengslum við rammaáætlun aftur inn í verkefnisstjórnina til þess að vinna þá úr þeim kostum sem um ræðir, í ljósi þess að málið er komið í miklar ógöngur. Hverjir eiga að fara í vernd, hvaða flokkar og orkukostir eiga að fara í bið og hverjir eiga að fara í nýtingu. Það er mikill misskilningur í gangi um að með því að setja eitthvað í nýtingarflokk sé sjálfkrafa farið af stað í að virkja. Það er ekki þannig. Það hins vegar heimilar viðkomandi virkjunaraðilum, oftast nær Landsvirkjun eða Orkuveitu Reykjavíkur, að fara í rannsóknir og rannsóknarboranir.

Að setja kosti í bið hins vegar stoppar slíkar framkvæmdir eins og meðal annars kemur fram í áliti og umsögn frá Orkustofnun. Upphaflega var grunnhugmyndin varðandi rammaáætlun sú að búa til vinnulag og verkferla sem áttu að vera byggðir á faglegum sjónarmiðum. Verkferla sem gætu dregið úr þeim miklu deilum sem hafa oft staðið um einstaka virkjunarkosti á umliðnum árum. Öll höfum við tekið þátt í því og það hefur margoft komið fram að menn hafa auðvitað skiptar skoðanir á þessu.

Ég vil sérstaklega draga fram ræðu hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, sem því miður er að hætta á þingi. Það er alveg ljóst að þó að ég og hún séum alveg bullandi ósammála í mörgum málum, hvort sem það er á sviði utanríkismála í tengslum við ESB eða aðildina að Nató eða fleira, þá er hún manneskja sem hefur komið fram af miklum heiðarleika og einurð í þessu máli. Hún hefur talað af sannfæringu og dregið fram mjög athyglisverð sjónarmið, ekki síst í ræðu sinni hér fyrr í dag varðandi það hvernig hún sér hlutina. Ég er henni sammála í sumu en öðru ekki og þess vegna, af því að hún dró fram þá ólíku kosti, ólíku sjónarmið sem við höfum til hugsanlegra virkjunarkosta, undirstrikar það enn frekar að þá leið sem við sjálfstæðismenn höfum sagt frá og talað fyrir, að þetta mál fari aftur inn til verkefnisstjórnarinnar og það er pólitísk ákvörðun. Við fáum reyndar ekki að ræða þetta í nefndinni, okkar tillaga kemst ekki á dagskrá einhverra hluta vegna, en við höfum eindregið talað fyrir því.

Að segja og viðurkenna: Gott og vel, við erum ekki sammála um alla hluti, við skulum reyna að beina því aftur í þann farveg sem við upphaflega gerðum. Þessi vinstri stjórn tók málið í rauninni upp með rótum og setti allt í þennan taugaveiklunarfarveg sem nú er í gangi.

Þetta var sem sagt grunnhugmynd rammaáætlunar: Að reyna að búa til vinnulag og verkferla þannig að við gætum dregið úr þessum miklu deilum sem hafa staðið um einstaka virkjunarkosti. Það var meðal annars byggt á því — menn halda að rammaáætlun sé eingöngu náttúruverndaráætlun og hún er það að hluta til en ekki eingöngu því við höfum okkar náttúruverndaráætlun og höfum samþykkt hana hér með nokkuð breiðri sátt. Upphaflega hugmyndin var sú að haldið yrði áfram að nýta orkuauðlindir landsins, en ákvarðanir um nýtingu einstakra svæða ættu ekki bara að taka mið af hagkvæmni og efnahagslegum hagsmunum heldur ætti einnig að vera tekið sérstaklega tillit til umhverfisverndarsjónarmiða og margvíslegra félagslegra þátta sem meðal annars tengjast virkjunarframkvæmdum. Sem sagt, þetta samspil milli nýtingar og verndunar og sá farvegur sem við höfum byggt upp í þessi 13 ár hefur að mínu mati verið til fyrirmyndar.

Ég fór yfir þetta allt saman í fyrri ræðu minni, en það sem ég vek athygli á er þessi taugaveiklun sem er í gangi. Hér má ekki spyrja um afstöðu til dæmis hæstv. forsætisráðherra til afstöðu ASÍ í þessu máli varðandi þau svikabrigsl sem hafa verið sett fram varðandi hegðun og afstöðu ríkisstjórnarinnar í hinum ýmsu málum. Þá koma menn hér upp í mikilli taugaveiklun, hvæsa á fólk sem leyfir sér að spyrja einfaldlega út í þessa hluti. Það skiptir máli að vita hvernig það er þegar allt er upp í loft og ríkisstjórnin getur ekki talað við aðila vinnumarkaðarins. Það stendur ekki steinn yfir steini í þeirra samskiptum. Við heyrðum það fyrr á þessu hausti og þá kom það meðal annars verkalýðshreyfingunni algjörlega í opna skjöldu sem undirstrikar það sem verkalýðshreyfingin er að segja í sínum auglýsingum.

Þegar einn þingmaður, ekki áhrifalaus þingmaður innan Vinstri grænna, talaði um þegjandi samkomulag. Þegjandi samkomulag um að þetta pottlok eða virkjunarstopp væri sett á allt alla vega fram að kosningum. Það er ekkert annað en baktjaldamakk af hálfu ríkisstjórnar Íslands.

Síðan lesum við að forseti ASÍ sem hefur verið jafnaðarmaður til langs tíma og hefur tilheyrt Samfylkingunni, hann hefur sagt sig úr Samfylkingunni. Hann segir meðal annars, með leyfi forseta, í yfirlýsingu sinni: „Nú er hins vegar svo komið að ég get ekki lengur varið það gagnvart samvisku minni og þeim hagsmunum sem ég hef helgað starfsferil minn að vera flokksbundinn í Samfylkingunni.“ Síðan kemur þetta: „Það afskiptaleysi, áhugaleysi, skilningsleysi og á stundum bein andstaða flokksforustunnar við mikilvæga hagsmuni almenns launafólks hefur fyllt mælinn. Hér á m.a. í hlut hik og aðgerðaleysi í atvinnusköpun, endurteknar skerðingar á réttindum elli- og örorkulífeyrisþega og atvinnuleitenda og nú síðast skattlagning á lífeyrisréttindi almenns launafólks …“

Alltaf er verið að draga það fram og Gylfi Arnbjörnsson dró það fram meðal annars í viðtali hér í gær og tengist nákvæmlega þessu máli sem við erum að ræða hér. Hann gagnrýndi sérstaklega stjórnvöld, einkum að Vinstri grænir hefðu staðið gegn öllum virkjunarkostum sem væru komnir það langt á leið að það væri hægt að ráðast í þá á næstunni. Steingrímur J. Sigfússon reyndi að móast við og hann sagði að þetta ætti nú ekki við, en þetta á einmitt nákvæmlega við í tengslum við alla umræðu um rammaáætlun. Þar hafa menn einfaldlega — og ég gat um það hér áður í fyrstu ræðu minni að þetta er engin sátt um nýtingu eða verndun. Rammaáætlun er ekkert annað en eitthvert sáttaplagg til þess að ríkisstjórnin geti hangið saman fram að kosningum. Það er allt sem bendir til þess, öll orðræðan, öll nálgun af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, hvernig menn engjast hér sundur og saman innan þeirra. (Forseti hringir.) Þetta er allt saman gert til að þessi blessaða ríkisstjórn haldi völdum sínum fram að kosningum. Mér finnst ég varla vera byrjuð á ræðu minni, frú forseti, þannig að ég ætla að biðja um að vera sett á mælendaskrá að nýju.