141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur fyrir ræðu hennar. Já, það eru merkilegir hlutir að gerast eins og þingmaðurinn fór yfir í ræðu sinni varðandi það andrúmsloft sem hefur skapast í kringum ríkisstjórnina, andrúmsloft sem hún hefur raunverulega skapað sjálf.

Það var svolítið skrýtið að sitja í þingsalnum í morgun í fyrirspurnatímum til ráðherra þegar hæstv. forsætisráðherra endurtók má segja allar hótanir og svikabrigsl hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar frá í gær, bæði í Speglinum og svo í Kastljósinu. Enda virðist svo vera að hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, hafi tekist að hrekja Alþýðusamband Íslands úr fangi sínu því að eins og við vitum hefur alltaf verið svolítil samfylkingarslagsíða á því, alla vega á skrifstofunni í Reykjavík. Það er því merkilegt og kannski umhugsunarefni fyrir fjölmiðla að athuga hvort yfirlögfræðingur ASÍ ætli að segja sig úr Samfylkingunni eins og forseti ASÍ. Eins og við munum var yfirlögfræðingur ASÍ starfandi þingmaður um nokkurra mánaða skeið í fjarveru hæstv. núverandi fjármálaráðherra.

Að öðru, hver er framtíðarsýnin í þessu máli? Hv. þingmaður fór yfir það að þetta plagg væri komið fram í þinginu einungis til þess að ríkisstjórnin mundi geta hangið saman. Er ríkisstjórn sem fer fram með mál í svona miklum ófriði, og með það eitt að stefnumarkmiði að sætta raðirnar innan sinnar eigin ríkisstjórnar, fær um að vera í forsvari á landsvísu og erlendis, vegna þess að með plagginu eru almannahagsmunir (Forseti hringir.) algjörlega fyrir borð bornir? Hvað finnst þingmanninum um það?