141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get sagt það sama um sjálfa mig varðandi þau svik sem urðu hjá ríkisstjórninni eftir að lögin voru samþykkt. Það datt ekki nokkrum einasta manni í hug að farið yrði með málið í þennan farveg. Eftir að lögin voru samþykkt í maí 2011 var gefinn tólf vikna umsagnartími um rammaáætlunina sjálfa — og hún kemur gjörbreytt til baka. Ég verð að viðurkenna að mér datt ekki í hug að ríkisstjórnin mundi fara með málið í þann farveg. Samvinna og samheldni hafði verið um áætlunina, nokkurs konar þjóðarsátt sem birtist í þessu plaggi þegar verkefnisstjórnin skilaði af sér. Á milli aðila í samfélaginu var kominn friður og sátt. Nei, þá gekk hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, fram ásamt hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni og setti málið í uppnám. Þetta er alveg hreint með ólíkindum.

Af því að hv. þingmaður rifjaði það upp að ríkisstjórnin vinnur á þann hátt að þeir sem eru ekki sammála henni eru settir út í kuldann þá ber að geta þess að hæstv. innanríkisráðherra var settur út úr ríkisstjórninni á sínum tíma en hann fékk nú að koma inn í hlýjuna aftur gegn hlýðni, líklega í ESB-málinu. Mjög tíð ráðherraskipti hafa orðið á starfsferli núverandi ríkisstjórnar, margir kallaðir til og margir verið látnir fara. Ríkisstjórnin er því komin í einkennilega stöðu. Fræðimenn í háskólanum eru gagnrýndir og teknir niður ef þeir dirfast að gagnrýna stjórnarskrárfrumvarpið. Nú er ríkisstjórnin komin í hár saman við verkalýðshreyfinguna eins og ég fór yfir í fyrra andsvari. Ég er eiginlega farin að hlakka til þegar ríkisstjórnin tekur kast á Feneyjanefndinni, því að nú er komið í ljós að Feneyjanefndin ætlar sér að minnsta kosti þrjá mánuði til að lesa yfir drögin að stjórnarskránni. (Forseti hringir.) Ætli hún sé ekki næst á aftökulistanum hjá ríkisstjórninni? Það mætti segja mér það.