141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:40]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég mun taka hér margar ræður þegar og ef málið um stjórnarskrána kemur hingað inn. Ég hef sagt að frá því að ég byrjaði á þingi árið 1999 hef ég ekki orðið, held ég, jafnleið eða döpur yfir neinu máli og því hvernig meðferðin á stjórnarskránni hefur verið, á ábyrgð og undir forustu stjórnarþingmanna og ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Það er önnur saga, við fáum tækifæri til að ræða það. Vinnubrögðin þar eru einmitt einkennandi vinnubrögð í allri nálgun og allri aðferðafræði þessarar sömu ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar þegar kemur að rammaáætlun.

Ég veit, herra forseti, að þeir sem hafa leyft sér að vera eitthvað andsnúnir og sett sína fyrirvara varðandi rammaáætlun hafa á stundum átt afar erfitt í þingflokki sínum. Ég hvet þá einfaldlega til dáða sem hafa einmitt þorað að setja fyrirvara sína en ekki þannig að þeir á endanum ýti síðan á græna takkann til þess eins að halda ríkisstjórninni saman, þessari lifandi dauðu ríkisstjórn að mínu mati, eins og ég gat um áðan, en þó þannig að hún er með það líf í sér að hún getur enn valdið miklum óskunda. Og það er það sem við sjálfstæðismenn erum að vara við, þ.e. að við samþykkjum eitthvert plagg sem snertir rammaáætlunina, plagg sem snertir náttúruna, plagg sem snertir líka uppbyggingu á orkukostum, sem dugar ekki nema fram að kosningum 27. apríl. Til hvers er þá verið að leggja í þessa ferð? Er það kannski bara til að varna því að farið verði í virkjanir og hunsa það sem ASÍ og Samtök atvinnulífsins hafa sagt, að við þurfum að fara í framkvæmdir sem ýta af stað hagvexti, sem auka kaupmátt til skemmri og lengri tíma litið? Er það kannski ætlunin að við hummum fram af okkur ákveðnar framkvæmdir eins og gert hefur verið allt þetta kjörtímabil? (Forseti hringir.) Ég efast um að Landsvirkjun hafi selt á þessu kjörtímabili eitt megavatt.