141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var tvennt eða þrennt í ræðu þingmannsins sem ég vildi ræða í andsvari mínu. Annars vegar er það hvers vegna sú ólánsmynd er komin á málið að gera rammaáætlun að svona rammpólitísku plaggi og hvaða ástæður liggja fyrir því. Ástæðan er að mínu mati nokkuð augljós þegar til að mynda einn hv. þingmaður hefur lýst því yfir að stuðningur hans við ríkisstjórnina sé skilyrtur því að ekki verði farið í virkjanir í neðri hluta Þjórsár, þess vegna gátu þær ekki verið í nýtingarflokki. Rökstuðningurinn á bak við það að henda þeim út var að mínu mati ekki reistur á faglegum rökum, ekki allur í það minnsta. Hefði hugsanlega mátt taka út Urriðafossvirkjun og geyma hana en hafa hinar tvær virkjanirnar áfram inni? Ég spyr hv. þingmann hvort hún sé sammála því. Lengi hefur verið beðið eftir því í atvinnulífinu. Kannski er það ein af ástæðum þess að ASÍ bregst svo harkalega við, eins og fram kom hjá hv. þingmanni í ræðu hennar, að forseti ASÍ hefur gengið úr Samfylkingunni. Hefði það einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar í sögu pólitíkur á Íslandi. Einhver hefði jafnvel haldið því fram að sálin væri gengin úr ríkisstjórnarflokkunum. En látum það vera.

Annað atriði sem ég ætla að koma inn á, og mun nú kannski ekki tæma hér að fullu í þessum hluta andsvarsins, er að menn hafa haldið því fram að við þurfum að fara í virkjanir til að standa undir hagvexti. Þá hafa komið upp menn í stjórnarliðinu og sagt að það þýði ekkert að virkja ef við getum ekki selt neitt og ef engin verkefni eru sem taka við verkefnunum. Það sé löngu liðin tíð að menn virki bara til þess að virkja. Ég tek (Forseti hringir.) undir það og spyr hv. þingmann hvort hún sjái einhver teikn á lofti um að hægt verði að koma þessum fjárfestingum í arðsamar framkvæmdir einhvers staðar. Af hverju (Forseti hringir.) hefur það ekki gerst á síðastliðnum fjórum árum? Mér finnst það áhugaverður punktur.