141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Þurfum við að ræða eitthvað þau hrossakaup sem átt hafa sér stað í tengslum við þetta mál? Þetta eru ekkert annað en hrossakaup. Ég fór yfir það í fyrstu ræðu minni um málið út á hvað það gengur og hvernig það var eftir 13 ára tiltölulega óumdeildan farveg sem flokkar með ólíka sýn á verndun og nýtingu höfðu þó komið sér saman um. Það var í rauninni stórpólitísk ákvörðun að setja málið í þann farveg.

Ég benti á hið þögla samkomulag sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir greindi skyndilega frá í þessum ræðustól. Það kom okkur öllum í opna skjöldu og einnig aðilum vinnumarkaðarins sem töldu sig vera með samkomulag sem fæli það í sér að menn færu í framkvæmdir, að menn færu í ákveðnar virkjanir til að reyna að koma af stað hagvexti í landinu til lengri og skemmri tíma.

Hv. þingmaður spurði mig hvort ég væri sammála því að geyma hugsanlega Urriðafossvirkjun en fara í staðinn í Holta- og Hvammsvirkjanir. Ég tel reyndar fullt tilefni til að fara líka í Urriðafossvirkjun af því að hún er ekkert síður rannsökuð en Holta- og Hvammsvirkjun en ég hef lýst því yfir að í ljósi umræðunnar séu efni og ástæður til að við geymum þann virkjunarkost, Urriðafossvirkjun, en förum í Holta- og Hvammsvirkjanir vegna þeirra vísindalegu niðurstaðna sem við erum búin að vinna að í áratugi í tengslum við þá virkjunarkosti.

Ég hef líka bent á það að ég telji, ekki síst í ljósi þeirrar miklu vinnu sem fyrrverandi hv. þm. Jón Kristjánsson beitti sér (Forseti hringir.) fyrir varðandi Norðlingaölduveitu, að við hefðum átt að setja þann kost í nýtingarflokk.