141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður komst ekki til þess í andsvari sínu að ræða þá staðreynd sem ég held að sé rétt, að ekki hefur verið selt eitt einasta megavatt á þessu kjörtímabili, til að mynda frá Landsvirkjun. Við þekkjum auðvitað vanda Orkuveitunnar sem hefur að hluta til stuðlað að því og eins að einhverju leyti vandræðagangur í kringum HS Orku og þau verkefni sem þar voru. Að hluta til var það vegna þess að ríkisstjórnin þvældist fyrir framan af, en aðrar ástæður liggja þar líka að baki eins og ágreiningur um verð og annað á milli Norðuráls og HS Orku.

Hver skyldi grundvallarástæðan vera fyrir því að ekki neitt hefur verið selt? Talað hefur verið um að 20, 30 fyrirtæki, mjög áhugaverðir fjárfestingarkostir, vilji nýta orkuna okkar til fjölbreyttra nota og uppfylla þar með markmið okkar flestra. Það væri áhugavert að heyra hvort hv. þingmaður og sjálfstæðismenn almennt séu ekki sammála því að það sé skynsamlegra að hafa fleiri egg í körfunni en einungis álver. Það sé skynsamlegt að nýta orkuna til fleiri þátta.

Af hverju hefur ekki tekist að selja neinum af þessum áhugaverðu fjárfestingarkostum sem standa hér í röðum daginn út og daginn inn eftir því að fá að nýta orkuna? Er það hin pólitíska óvissa? Er það skattstefnan? Er það vegna þess að menn setja sér of háleit markmið um verð eða er það vegna þess að menn kunna ekki að selja? Mér finnst það áhugavert en það hefur lítið verið rætt að ekki hefur verið selt eitt einasta megavatt þrátt fyrir yfirlýsingar um að margir vilji koma hingað og fjárfesta, það sé bara verið að bíða eftir nógu háu verðtilboði. Endar þetta þá eins og þegar Blönduvirkjun var byggð, að það átti alltaf að koma álver á Keilisnesi en það kom aldrei. (Forseti hringir.) Það voru forverar Samfylkingarinnar sem stóðu að því verki. Það gekk hvorki né rak fyrr en framsóknarmenn komu að því.