141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:49]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Af hverju eru erlendir fjárfestar ekki fleiri hér á landi en raun ber vitni? Auðvitað er það þannig, og það vita það allir sem fylgjast almennilega með, að viðhorfið gagnvart erlendri fjárfestingu í einhverjum arðbærum verkefnum er ansi neikvætt. Andrúmsloftið og viðmót stjórnvalda hér er ekki hentugt fyrir erlendar fjárfestingar eins og staðan er núna. Af hverju segi ég það? Það segi ég ekki bara vegna þess að ég er á móti þeirri ríkisstjórn sem nú situr, ég er á móti henni vegna þess hvernig hún hagar sér m.a. í samskiptum við útlendinga sem hafa áhuga á því að byggja hér upp verkefni. Menn taka ákvarðanir aftur í tímann. Það er enginn fyrirsjáanleiki. Það er ekkert traust á stjórnsýslunni. Það er það sem blasir við erlendum fjárfestum þegar þeir koma hingað, fyrir utan alla hina pólitísku óvissu.

Hvað eiga útlendingar að segja um fyrirkomulagið varðandi rammaáætlun? Hvað eiga þeir að segja ef þeir fylgjast með umræðunni í tengslum við rammaáætlun og hvernig ráðherrar hafa möndlað þar með ákveðna virkjunarkosti sín á milli til þess að halda lífi í ríkisstjórninni? Auðvitað er það ekkert annað en pólitísk óvissa. Við getum nefnt líka gagnaverið sem okkur bauðst um tíma. Menn halda stundum þegar við segjum að fara þurfi í virkjanir að alltaf sé átt við álver. Heldur betur ekki. Ég veit ekki betur en að við sjálfstæðismenn, í samvinnu við Framsóknarflokkinn og líka í samvinnu við Samfylkinguna, höfum reynt að byggja upp þannig samfélag að við settum ekki öll eggin í sömu körfuna. Við reyndum að búa þannig um hnútana en ríkisstjórn Íslands í dag segir: Nei, kæru vinir, útlendingar. Það er gaman að tala við ykkur yfir kaffisopa en við viljum ekki fá ykkur hingað inn.

Af hverju flæma menn burtu ýmsa valkosti, hvort sem þeir tengjast gagnaverum, álverum eða annarri uppbyggingu? (Forseti hringir.) Það gengur ekki að setja mál sín fram með þeim hætti eins og ríkisstjórnin gerir. Þess vegna erum við (Forseti hringir.) byrjuð að telja niður dagana þar til hún fer frá.