141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er mjög athyglisvert að lesa nefndarálit frá 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar og fylgiskjal með því þar sem farið er yfir það ferli að sex vatnsaflsvirkjunarkostir eru færðir úr nýtingarflokki í bið. Á síðustu árum hefur komið í ljós að vandamál fylgja jarðvarmavirkjunum sem enn hefur ekki fundist lausn á, ekki síst hvað varðar útblástur lofttegunda og niðurdælingu vatns. Það er því skrýtið að tekin skuli hafa verið ákvörðun um að færa vatnsaflsvirkjanir yfir í biðflokk.

Þegar ég las nefndarálitið mundi ég eftir því að á síðasta þingi lagði ég fram skriflega fyrirspurn fyrir þáverandi hæstv. umhverfisráðherra um hvernig og hversu mikil mengun væri frá virkjunum og borholum Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði. Ég spurði hvort farið hefðu fram mælingar á því frá þessum virkjunum. Taldi ég þá upp Reykjavík og nágrannasveitarfélögin og hvaða efnasambönd, sem væru óholl mönnum og dýrum, mældust yfir þeim mörkum sem um var talað og í hvað miklu magni.

Mig langar til að koma því inn í umræðuna vegna þess að verið er að færa vatnsaflsvirkjanir í bið og lagt til að farið verði í virkjun háhitasvæða suður með sjó. Háhitavirkjanir eru lítið rannsakaðar, eins og ég hef farið yfir áður.

Mig langar til að lesa upp svar sem barst frá hæstv. umhverfisráðherra við fyrirspurn minni, með leyfi forseta:

„Jarðhitavökvinn sem kemur upp á yfirborð við virkjun háhitasvæða er blanda fjölmargra efna og efnasambanda sem mörg hver geta verið skaðleg lífríki og heilsu ef þau berast óheft og í miklu magni út í umhverfið. Þegar vökvinn kemur upp á yfirborð skiptist hann annars vegar í vökvafasa og hins vegar í gufufasa. Helstu efni sem geta verið skaðleg í vatnsfasa eru ál, blý og arsen. Í gufufasanum er það einkum brennisteinsvetni og kvikasilfur sem valda mengun, en einnig losa jarðhitavirkjanir gróðurhúsalofttegundir, svo sem koldíoxíð og metan. Styrkur þessara efna er mjög mismunandi eftir jarðhitasvæðum og jafnvel ólíkur innan einstakra svæða. Í því skyni að draga úr umhverfisáhrifum frá affallsvatni frá jarðhitavirkjuninni á Hellisheiði var það skilyrði starfsleyfis að því sé dælt aftur niður í jarðhitageyminn og með því móti komið í veg fyrir hugsanleg skaðleg áhrif af þeim efnum sem eru í vatninu.“

Þarna kemur það fram svart á hvítu að þessar virkjanir eru mjög lítið rannsakaðar og mjög breytilegar eftir því hvar þær eru staðsettar á landinu. Meira að segja kemur fram að það er líka breytilegt ef virkjanirnar eru á sama svæðinu.

Það finnast mér alvarleg tíðindi sérstaklega vegna þess að jarðhitavirkjanir losa gróðurhúsalofttegundir. Við erum núorðið aðilar að ETS-kerfinu hjá Evrópusambandinu og eru settar miklar sparnaðarskyldur á okkur varðandi útblástur. Ég tel því að hin hreinræktaða vinstri stjórn sé þarna að fara úr öskunni í eldinn varðandi mengun og umhverfisvernd því að það er löngu sannað að vatnsaflsvirkjanir eru langtum umhverfisvænni en nokkurn tímann þær háhitavirkjanir sem hér er lögð áhersla á. Auðvitað þarf líka að fara í þær því að við þurfum náttúrlega að geta blandað saman vatnsafli og háhitasvæði og lifað í sátt við umhverfið, en mér finnst það svolítið skrýtið að Vinstri grænir skuli leggja þetta til þegar þeir eru í ríkisstjórn í ljósi þess hversu mikil mengun hlýst af háhitavirkjunum. Við höfum séð það í kringum Hellisheiðarvirkjun að mosinn hefur sölnað þar o.s.frv. og talið er að fleiri tilfelli af astma í fólki á höfuðborgarsvæðinu stafi m.a. af útblæstri frá virkjuninni.

Það verðum við að skoða og stíga varlega til jarðar, virðulegi forseti. Við vitum hvað við höfum (Forseti hringir.) þar sem vatnsaflið er, en við vitum ekki jafn vel hvar við stöndum þegar um háhitavirkjanir er að ræða.