141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerði jarðhitavirkjanirnar að umtalsefni sínu. Ég ætla aðeins að segja frá mínu sjónarmiði í þeim efnum.

Ég tel að jarðhitavirkjanir eigi fullkominn rétt á sér. Við höfum margra áratuga reynslu af því að virkja jarðhita. Það hefur auðvitað skilað okkur óskaplega miklum verðmætum. Það hefur orðið til þess að lækka húshitunarkostnað, við höfum getað framleitt rafmagn og selt inn í atvinnufyrirtækin og þannig skapað verðmæti. Hins vegar eru jarðhitaverkefnin í eðli sínu ólík því sem við þekkjum í vatnsaflinu. Í vatnsaflinu er hægt að reikna þetta alveg út fyrir fram. Menn búa til virkjanir og geta sagt sér fyrir fram með tiltölulega mikilli nákvæmni hversu stórar þessar virkjanir verða og hversu mikla orku er hægt að framleiða. Það getum við ekki með jarðhitann og þess vegna tekur þetta tíma. Við þekkjum það að menn þurfa smám saman að afla upplýsinga og með vinnslu á þessum borholum er það smám saman leitt fram hvað þessar orkuholur geta gefið okkur mikla orku. Í raun og veru er því svo mikilvægt þegar við erum að velta þessu fyrir okkur að við höfum þetta samspil, annars vegar vatnsaflið og hins vegar jarðhitann, af því að jarðhitauppbyggingin er einfaldlega hægari. Þetta þekktum við þegar var verið að tala um Þeistareyki. Við mundum það þegar var verið að segja okkur frá stóru hugmyndunum fyrir austan og norðan og núna erum við sem sagt í þessari stöðu.

Það sem er svo alvarlegt við þessa rammaáætlun eins og hún liggur fyrir er að í raun og veru er búið að ýta öllu vatnsaflinu formlega út af borðinu og inn í biðflokkinn þannig að við höfum ekki þennan möguleika sem er svo mikilvægur ef við ætlum að nýta orkuauðlindirnar okkar með sjálfbærum hætti. Það er það sem Orkustofnun bendir á. Hún segir við okkur: Við getum ekki nýtt jarðhitann eins skynsamlega og við vildum gera vegna þess að þessi kostur, vatnsaflið, er ekki til staðar.