141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að þingmaðurinn hafi ekki tekið því þannig að ég væri að tala niður þessar virkjanir varðandi samanburðinn við vatnsaflið. Ég var einfaldlega að reyna að benda á hvað það var röng ákvörðun að taka hagkvæmustu vatnsaflsvirkjanirnar út og setja þær í bið vegna þess að við þurfum að koma atvinnulífinu hérna af stað sem fyrst. Það gerist ekki á meðan ekki er hægt að setja niður virkjanir eins og til dæmist í neðri hluta Þjórsá sem er raunverulega tilbúin til framkvæmda eða þá á öðrum stöðum þar sem svo er. Hitt tekur meiri tíma og það eru fleiri spurningar varðandi háhitasvæðin.

Talandi um það þá munum við öll þegar var verið að byggja Kárahnjúkavirkjun sem er líklega ein stærsta framkvæmd sem íslenska ríkið hefur farið í á sínum tíma og í nútímanum. Það voru mikil mótmæli við þá virkjun. Fólk fór austur og hlekkjaði sig við vinnuvélar og tæki og það voru fluttir inn atvinnumótmælendur til þess að hindra framkvæmdina. Hvað gerist á sama tíma? Rétt fyrir utan borgarmörkin uppi á Hellisheiði fær Orkuveita Reykjavíkur algjörlega að vera í friði með alveg risastóra virkjun sem hefur jafnvel langtum meiri umhverfisspjöll í för með sér en nokkurn tímann svæðið fyrir austan. Það var þó alveg uppi á hálendinu en Hellisheiðin er nálægt borgarmörkunum. Eins og ég segi er sú mengun sem kemur frá Hellisheiðarvirkjun ekki fullrannsökuð. Mér er sagt að það kosti ekki nema 250–300 milljónir að kaupa hreinsibúnað á Hellisheiðarvirkjun og þá verði andrúmsloftið í kringum hana í lagi. Því þurfum við að huga að.

Eins og þingmaðurinn veit er frekar þéttbýlt á Suðurnesjunum þannig að það er það sem ég er fyrst og fremst að bera saman hérna, vatnsaflið er svo langtum auðveldara (Forseti hringir.) og fljótvirkara í framkvæmd til virkjunar.