141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Stundum er sagt að það sé hægt að leyfa sér að vera mikill og kræfur umhverfisverndarsinni þegar ríkir góðæri og að sama skapi eigi þjóðin að vera virkjunarsinni þegar er krísuástand eða kreppa. Ég tek alveg undir það. Vinstri grænir og Samfylkingin hafa nú ákveðið að stoppa þessar framkvæmdir, eins og þingmaðurinn fór yfir, og taka út neðri hluta Þjórsár og fleiri ákjósanlega virkjunarkosti. Þetta mál er einhvern veginn keyrt á þeirri stemmningu að það er eins og við séum jafnvel að brenna kol og leggja til að það verði sett á stofn hér kjarnorkuver til að framleiða orku. Þetta er allt náttúruleg orka. (EKG: Olíuleitin.) Svo er gripið fram í hérna. Já, olíuleitin. Það hentar nú ekki heldur Vinstri grænum að við förum að leita að olíu. Málið er sett í þennan (Forseti hringir.) farveg, eins og við séum hér í rosalegu krísuástandi út af mengunarmálum og öðrum málum sem eiga bara ekki heima í íslenskri umræðu.