141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er náttúrlega hreint dæmalaus, hvernig búið er að koma öllu í loft upp undanfarin ár í samfélaginu bara vegna þess að einhverjir telja sig vera meiri umhverfisverndarsinna en aðra. Við framleiðum einungis hreina orku. Það er nú ekki langt síðan að það varð meiri háttar umhverfistjón í Japan þegar jarðskjálftarnir þar urðu og kjarnakljúfarnir næstum því bráðnuðu en þar er notuð kjarnorka. Evrópa er komin langt út fyrir markmið Kyoto-bókunarinnar vegna þess að það er orðin svo mikil orkuþurrð í ríkum Evrópusambandsins að farið er að brenna kolum í langtum meira mæli en var fyrir nokkrum árum. Svo erum við hér heima á Íslandi og teljum að allt sé svo mengandi sem við gerum. Þetta er náttúrlega bara vitleysa.

Það er búið að afvegaleiða menn svo í þessari umræðu og það er slæmt fyrir samfélagið vegna þess að við höfum öll tækifæri til að selja orkuna okkar sem græna orku.

Ég vil horfa á hlutina heildstætt og út frá stóra samhenginu eins og hv. þingmaður hefur kannski tekið eftir í ræðum mína síðan ég settist á þing. Hann talaði um að ákveðið vandamál hefði verið leyst með Bláa lóninu. Það er verið að leysa Hellisheiðarvandamálið ef hugmyndir um tómataræktun á Hellisheiði verða að veruleika, því að þá er hægt að taka koltvísýringinn, sem er aukaafurð þarna og spýtist út í andrúmsloftið, inn í gróðurhúsið og þá eykur hann vöxt plantna. Verið er að gera tilraunir í stóriðjunni hér á landi með því að endurvinna og setja í hringferli önnur tilfallandi úrgangsefni sem menga. Þannig að við (Forseti hringir.) erum á fullri ferð í að gera góða hluti. Stóriðjan er á fullri ferð, en þá fáum við stjórnmálaflokk sem heitir Vinstri grænir sem keyrir hér allt niður.