141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt sálarlíf hæstv. ráðherra Vinstri grænna sem mig langaði til að ræða um við hv. þingmann. Fyrir nokkrum dögum samþykktu forustumenn Vinstri grænna í umhverfismálum, þ.e. hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, að hefja olíuboranir á Drekasvæðinu. Nú er það eitthvað sem ég er í sjálfu sér hlynntur, þó að ég vildi kannski skoða það að geyma þessi lífrænu efni sem eru mjög verðmæt mannkyninu. Það er eiginlega synd að menn séu að kveikja í þeim, ég hefði viljað geyma þau. Þessir ráðherrar taka ákvörðun um að fara í olíuboranir á sama tíma og þeir rústa samkomulagi um rammaáætlun. Getur hv. þingmaður reynt að útskýra fyrir mér hvað fólk er að hugsa þegar það tekur svona ákvarðanir; að fara annars vegar að bora eftir olíu sem veldur hreinni og klárri mengun fyrir mannkynið og rústa hins vegar rammaáætlun sem skemmir einmitt markmiðið um minni mengun?