141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef í síðustu ræðum mínum farið yfir einstaka virkjunarkosti sem ég hef talið að hefðu í meðförum ráðherranna, eða þá hugsanlega nefndarinnar, átt að vera flokkaðir upp á nýtt vegna þess að það lágu fyrir nægileg og skynsamleg rök til að setja þá í orkunýtingarflokk. Þeir virkjunarkostir eru annars vegar svokölluð Hagavatnsvirkjun þar sem er verið að færa til fyrra horfs útfallið úr Hagavatni, Farið, og virkja þá fallhæð sem þar kemur. Einnig eru umhverfislegir þættir mjög jákvæðir og umsagnir mjög góðar. Hinn þátturinn er Hólmsárvirkjun neðri við Atley í Skaftárhreppi en þar var líka vandræðagangur í meðförum verkefnisstjórnarinnar, gögn týndust og ég hefði talið fullkomlega eðlilegt að ráðherrarnir hefðu skoðað það. Ég hef bent á umsagnir eða minnisblað orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins. Ég hef útbúið breytingartillögur um að færa þessa kosti úr biðflokki í orkunýtingarflokk sem ég vænti að verði dreift fljótlega hérna á þinginu.

Það sem ég ætlaði að fara aðeins í er afleiðingin af því sem við framsóknarmenn höfum talað lengi fyrir hér, að það sé nauðsynlegt að vera með virka atvinnustefnu og að rammaáætlun sé ekki einungis umhverfisleg flokkun á virkjunarkostum heldur sé líka tekið tillit til efnahagslegra og samfélagslegra þátta. ASÍ kvað upp úr um það í gær að þeir væru hættir afskiptum af og samstarfi við ríkisstjórnina vegna þess að það skilaði engum árangri. Þeir sendu út auglýsingu sem var í raun og veru ákall til okkar þingmanna um að taka málið upp á nýjan leik, hvort við gætum ekki komið einhverju viti í þessa rammaáætlun þannig að þar væri áframhaldandi vöxtur miðað við þær forsendur sem menn hafa verið að gefa sér.

Í því sambandi langar mig að minnast aðeins á skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið McKinsey gaf út nýlega og er úttekt á íslensku atvinnulífi og samanburður við Norðurlöndin. Það er til dæmis mjög áhugavert að bera okkur saman við Norðmenn sem gengur mjög vel. McKinsey-fyrirtækið flokkar atvinnulíf á Íslandi í þrjá hópa. Það er það sem við getum kallað alþjóðlegan geira sem keppir á alþjóðlegum mörkuðum. Þar er okkar hlutfall af atvinnulífi um 12% af mannafla en í Noregi er það 14%. Það er ekki stór munur þar á. Við þurfum vissulega að sækja í okkur veðrið þar, það tekur lengri tíma. Við þurfum að laga meðal annars hinn pólitíska óstöðugleika sem er á Íslandi í dag með síbreytilegum skattbreytingum og annað í þeim dúr. Annar þáttur er geiri sem nýtir auðlindirnar eins og fiskveiðar, matvælaframleiðsla, landbúnaður, orkugeirinn og að stóru leyti ferðaþjónustan. Hann er 23% hjá okkur, býsna stór. Í Noregi er hann enn stærri, 29%. Síðan er sá hluti sem þeir benda á að sé allt of stór hjá okkur miðað við þá framleiðni sem sá hluti atvinnulífsins skilar. Hann er 65% og heitir á ensku „domestic service sector“ eða innanlandshluti atvinnulífsins, öll opinber starfsemi, minni fyrirtæki í þjónustugeira eins og til dæmis verslun og þjónusta sem ítrekað hefur verið bent á að nýtir allt of mikið af húsnæði og þar er of mikill mannafli. Niðurstaða skýrsluhöfunda er að á næstu árum, og helst mjög fljótt, þurfum við að færa um 13 þúsund af mannafla úr þessum 65% hluta, þar sem Norðmenn eru 57%, og yfir í hina tvo, þ.e. í auðlindanýtingarhlutann og þennan alþjóðlega, eða þá auka framleiðni í þessum geira.

Við þurfum að vinna á öllum sviðum. Við eigum að hætta að horfa á einhvern einn þátt eins og oft hefur verið gert og er auðvitað nærtækast að rifja upp fjármálageirann sem óx hér og við Íslendingar einbeittum okkur allt of mikið að um langt skeið. Það er rétt að minnast á að í samstarfsyfirlýsingu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007, að kröfu Samfylkingarinnar, var þess krafist að bankarnir gætu vaxið áfram. (Forseti hringir.) Ef við berum okkur saman við Noreg og höfum Norðmenn sem fyrirmynd er ekkert að því að stækka auðlindanýtingargeirann (Forseti hringir.) og það allnokkuð á næstu árum. Þess vegna þurfum við að breyta þessari rammaáætlun og þess vegna hef ég tekið þetta mál ítrekað upp hérna, frú forseti.