141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að þau varúðarsjónarmið eru reifuð sem aðalrök ráðherranna fyrir því að færa allar virkjanirnar þrjár í neðri hluta Þjórsár úr nýtingarflokki í bið. Ég tel það í fyrsta lagi algjöra rökleysu að færa þær allar þrjár. Ef menn horfa á þennan þátt hafa nokkrir áhugamenn lagt mikla áherslu á að það þurfi frekari rannsóknir á honum sem er reyndar ekki í góðu samræmi við það sem til dæmis hefur verið sagt hjá Veiðimálastofnun. Þar fullyrða þeir í raun að gerðar hafi verið víðtækar rannsóknir í mjög langan tíma sem auðvitað þurfi að halda áfram og það sé áhugavert að kanna áhrifin til að mynda af Hvammsvirkjun og þeirri seiðafleytun sem Landsvirkjun hafði fyrirhugað að setja í Urriðafossvirkjun en hefur boðist til sem mótvægisrök að setja í efstu virkjunina til að prófa hana þar.

Þannig er að laxastofninn hefur vaxið mjög mikið í Þjórsá eftir að efri virkjanirnar tóku gildi af því að búsvæði laxa hefur vaxið gríðarlega, bæði með tilkomu laxastiga við fossinn Búða en líka einfaldlega vegna þess að virkjanirnar fyrir ofan gera það að verkum að búsvæðin eru orðin betri og það eru betri vaxtarskilyrði. Þess vegna hefur veiðin á nokkrum síðustu árum verið margfalt umfangsmeiri en hún var til að mynda fyrir 40 árum, áður en nokkrar virkjanir voru komnar þarna inn. Ég hef því verið á þeirri skoðun að það séu engin rök sem hníga að því að taka hinar tvær út úr nýtingarflokknum, þ.e. Hvamms- og Holtavirkjun, en vegna þess að það er líka óskynsamlegt að fara í þær allar í einu finnst mér í sjálfu sér skynsamlegt að geyma Urriðafoss í biðflokki og (Forseti hringir.) og fara í þessar rannsóknir. Bíða eftir árangri af seiðafleytu í Hvammsvirkjun og taka að nýju upplýsta ákvörðun um Urriðafoss að þeim tíma liðnum.