141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað rétt að þeir sem hafa lagst harðast gegn þessu eru þeir sem eru í Veiðifélagi Þjórsár. Þó er mjög áhugavert að sá sem trúlega hefur mesta reynslu af því að veiða í Þjórsá og hefur haft af því talsverðar tekjur leggst ekki gegn virkjun Urriðafoss þótt hann búi á bænum Urriðafossi. Það er meðal annars með þeim rökum að það eru ákveðnar væntingar til þess að við virkjanirnar verði hugsanlega hægt að fara í stangveiði í neðsta hlutanum þegar fram í sækir. Það gæti verið mun verðmætara en sú veiði sem hefur alltaf verið í net í Þjórsá. Líka vegna þess að hans mat er, og það væri áhugavert ef fleiri hefðu slík viðhorf til lífsins, að það sé samfélagsleg ábyrgð hans vegna þess að þetta er þjóðhagslega gríðarlega mikilvægt, hans hagsmunir eigi ekki að vera settir hærra heldur en samfélagsins alls.

Þannig er því líka háttað með meginpartinn af landeigendum, ekki síst við tvær efri virkjanirnar. Það er búið að semja við allflesta þannig að það er fátt sem þar er í vegi. Það má líka halda því fram að andstaða Sólar á Suðurlandi og þeirra sem hafa barist gegn þessu hafi skilað þeim árangri að sú útfærsla og hönnun sem Landsvirkjun er með núna er miklu betri en hún var fyrst. Það sýnir okkur að auðvitað þurfum við að vanda okkur í hvert sinn og fara varlega í framkvæmdir sem hafa langvarandi áhrif. Ég tel sem sagt að sú niðurstaða sem var komist að hefði verið fullkomlega ásættanleg. Eins og ég sagði eru engin rök sem hníga að því vegna varúðarsjónarmiða að taka tvær efri virkjanirnar úr nýtingarflokknum en sú þriðja er umdeild. (Forseti hringir.) Ef við viljum vera skynsöm og leita sátta þá væri það að mínu mati ein góð leið að setja Urriðafoss (Forseti hringir.) í bið jafnvel þó að ég sé efins um að það séu nægilega sterk rök sem styrkja þá ákvörðun.